ABS hemlalæsivörn mótorhjóla lögfest í EES frá áramótunum

Allt bendir til þess að nýjar Evrópureglur um hemla mótorhjóla taki gildi um næstu áramót. Í þeim felst það að flestöll mótorhjól með stærri vél en 125 rúmsm sem nýskráð verða eftir 1. Janúar 2017 verða að vera búin læsivörðum (ABS) hemlum.

    Þetta þýðir það að læsivarðir hemlar verða ófrávíkjanleg forsenda þess að mótorhjól geti fengist nýskráð í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Einu gildir hvaðan mótorhjólið kemur, hversu langt er um liðið frá framleiðsludegi þess eða hvort það hafi áður verið skráð í ríki utan EES, t.d. í Bandaríkjunum. Ef ekki eru ABS hemlar í hjólinu fæst það einfaldlega ekki skráð til notkunar innan EES. Þannig verður heldur ekki hægt að nýskrá þau ABS-lausu nýju mótorhjól sem þegar eru til staðar og verða enn óseld og númerslaus inni á gólfum mótorhjólainnflytjenda á öðrum degi nýs árs 2017.

    Sem fyrr segir eru hjól með vélum minni en 125 rúmsm undanþegin ABS-reglunni. Ennfremur þurfa torfæruhjól og svonefnd Enduro-hjól ekki að vera með ABS hemla. Notuð ABS-laus hjól sem skipta um eigendur munu áfram fást skráð á nafn nýs eiganda enda þótt fyrri eigandinn og sá nýi búi í sínu hvoru EES ríki. Slíkt mun hins vegar ekki ganga í gegn ef seljandinn býr utan EES og hjólið þannig skráð utan þess einnig.

    Það eru fyrst og fremst öryggissjónarmið sem réðu við setningu þessara nýju laga. ABS læsivörnin kemur í veg fyrir að hjól farartækjanna læsist og stöðvist við nauðhemlun. Þar sem jafnvægi tveggja hjóla farartækja felst fyrst og fremst í snúningi hjólanna þá er það farið veg allrar veraldar ef annað eða bæði hjólin læsast. Þá er næsta víst að ökumaður fellur í götuna. ABS læsivörnin sér hins vegar til þess að hjólin læsast aldrei, hemlunin verður eins og hún getur best orðið, hemlunarvegalengd styttist og hætta á falli stórminnkar.