ADAC veltuprófar litla blæjubíla


http://www.fib.is/myndir/Peugeotoltinn.jpg

Hversu öruggur er lítill blæjubíll ef hann veltur og endar á hvolfi? Svarið er skýrt - alls ekki öruggur. Þetta er meginniðurstaða veltuprófs sem ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur gert á nokkrum litlum blæjubílum. Aftursætisfarþegar fara skást út úr veltu í Peugeot 207. Hættulegastur er hins vegar Citroen Pluriel. Mini Cooper Cabrio blæjubíllinn veitir aftursætisfarþegum vissa vernd en heildareinkunn hans er léleg. ADAC krefst úrbóta á þessari gerð bíla og hertra öryggisreglna um þá.

Opnir bílar og blæjubílar verða stöðugt vinsælli í Evrópu, ekki síst litlir. En öryggi þeirra sem í þeim eru, er fyrir borð borið ef bíllinn veltur. Í mörgum stærri blæjubílum eru veltibogar sem skjótast út ef bíllinn er við það að velta. Slíkur búnaður er ekki algengur í litlu blæjubílunum eða litlu bílunum með fellanlegum toppi. http://www.fib.is/myndir/Cabriograf.jpg

Einmitt vegna þess að slíka veltiboga vantar hefur ADAC veltuprófað þrjá litla bíla með opnanlegum toppi. Það var gert til að ganga úr skugga um það hvernig fólkið í bílnum er varið ef bíllinn fer eina eða fleiri veltur. Bílarnir sem prófaðir voru eru allir mjög vinsælir í þessum flokki bíla í Evrópu. Þeir eru Peugeot 207 CC, BMW Mini Cooper cabrio og Citroën Pluriel. Peugeot 207 CC er með fellanlegan stáltopp. Hinir tveir eru með blæju sem felld er með handafli.

Peugeot bíllinn er sá eini þessara þriggja bíla sem er með veltiboga aftan við aftursætin sem skjótast út þegar bíllinn byrjar að velta. Mini Cooper Cabrio er með fasta og afar lága veltiboga aftan við aftursætin. Engir bogar eru í Citroen Pluriel heldur eru hnakkapúðarnir einir látnir duga. Á engum bílanna er hæðarstilling fyrir sætisbeltin. Enginn bílanna er heldur með hliðarloftpúða sem ná að verja höfuð þeirra sem sitja í framsætunum.

Peugeot 207 CC ver fólkið best bílanna þriggja. Hann fær umsögnina góður fyrir það hve vel hann verndar aftursætisfarþegana og fyrir það að veltibogarnir aftan við aftursætið skjótast út áður en bíllinn skellur á hvolf í fyrstu veltu. Tæknimenn ADAC telja þó að veltibogarnir veiti ekki nægjanlega vörn fyrir þá sem eru hávaxnari en 1,74 sm. En í framsætinu eru varnirnar svo verri en í aftursætinu því að A-stólparnir (framrúðukarmurinn) þrýstast niður um 11 sentimetra sem er það slakasta í umræddu prófi. Það dregur stórlega úr lífsrýminu og möguleikum á því að sleppa lifandi úr veltu.

Sætisbeltafestingarnar eru illa staðsettar þannig að árekstrarbrúðurnar losnuðu auðveldlega úr beltinu, sérstaklega þeim hluta þess sem lá yfir öxlina. En beltastrekkingin virkaði að nokkru til mótvægis því með því að strekkja beltin það vel að þau héldu vel utan um mjaðmir dúkkunnar og henni þannig fastri í sætinu í veltunni. Sömu skynjarar og skjóta út veltibogunum strekkja á sætisbeltunum þannig að hvorttveggja gerist áður en bíllinn skellur á hvolfi á jörðina.

Mini Cooper Cabrio er vinsæll blæjusmábíll. Veltibogarnir aftan við aftursætin eru fastir en svo lágir að takmarkað gagn er að þeim fyrir farþega yfir 1,75 m á hæð, ef bíllinn veltur. Gluggastólparnir (A-stólparnir) eru hins vegar sterkir þannig að sú vernd sem þeir veita þeim sem eru í framsætunum fær umsögnina viðunandi. Verra var hins vegar með illa staðsetta festipunkta sætisbeltanna. Þeir eru þannig að þeir ssem sitja í framsætunum runnu auðveldlega úr beltunum í veltu og búkurinn hafnaði utan við bílinn í veltunni. Það þýðir miklar ákomur á efri hluta líkamans. Ástæða þessa er sú að beltastrekkjararnir virka ekki í veltu. Engir skynjarar eru í bílnum sem virkja beltastrekkinguna við veltu, eins og er í Peugeot bílnum.

Gluggastólparnir í Citroën Pluriel reyndust ágætlega sterkir og gáfu minna eftir en í Peugeot 207 CC en þrátt fyrir það urðu talsverðar ákomur á höfuð árekstrarbrúðanna framí.
Festipunktar öryggisbeltanna eru verst staðsettir í bílnum af prófunarbílunum og árekstrarbrúðurnar runnu auðveldlega út úr beltunum þegar bíllinn valt og slógust í jörðina. Strekkingarbúnaður fyrir framsætisbeltin mun vera til staðar í bílnum en engir skynjarar eru tengdir við búnaðinn sem skynja halla á bílnum og því virkar búnaðurinn ekki í veltu.
Afturí eru svo engir veltibogar heldur einungis mjúkir hnakkapúðarnir þannig að sú heildareinkunn sem bíllinn fær fyrir vernd í veltu er léleg fyrir bæði fram- og aftursæti.

Verkfræðingar og tæknimenn ADAC sem framkvæmdu þessa prófun telja niðurstöðurnar ógnvænlegar. Þeir krefja framleiðendur bílanna um skilyrðislausar úrbætur á þeim ágöllum og veikleikum sem þeir fundu, enda séu þeir þess eðlis að þessir umræddu bílar séu lífshættulegir við vissar aðstæður eins og þeir eru. Þeir benda á að tæknin sé til staðar til að gera nægar öryggisbætur á bílunum án þess að gera á þeim róttækar breytingar hverjum um sig. Það sem gera þurfi við bílana sé eftirfarandi:

# Framrúðustólparnir verði sterkari og það öflugir að þeir bogni alls ekki þótt bíllinn velti nokkrar veltur.

# Efsta öryggisbeltafestingin (yfir öxl farþegans) verði hærri og auk þess stillanleg á hæðina svo beltið geti lagst rétt og eðlilega að líkamanum.

# Strekkingabúnaður verði á beltunum sem bregst við þegar bíllinn kastast til hliðar.

# Veltibogar sem sem eru nægilega háir til að verja höfuð fólks sem er hærra en 1,75 m.

# ESC stöðugleikabúnaður sem kemur í veg fyrir að bíllinn til og velti í kjölfarið.