Aðalfundur Euro RAP í Reykjavík

Þessa dagana fer fram í Reykjavík aðalfundur Euro RAP. EuroRAP er sjálfstæð stofnun sem varð til utan um þá hugmynd að öryggisskoða vegi, greina mögulega slysastaði á þeim og leggja til úrbætur. Hugmyndin að EuroRAP kviknaði árið 1999 en FÍB varð aðili að EuroRAP árið 2004.

Fundinn í Reykjavík sitja yfir 50 manns frá mörgum þeirra landa þar sem Euro RAP starfar, ýmist undir eigin merki eða merkjum dóttursamtaka einstakra ríkja og svæða. Fundarmenn koma þannig víða að, m.a. frá Ástralíu og Nýja Sjálandi auk Evrópu.

http://fib.is/myndir/Dawson.jpg
John Dawson.
http://fib.is/myndir/Sigurbergur.jpg
Sigurbergur Björnsson.

Mjög mikill árangur hefur orðið af starfi Euro RAP. Alvarlegum umferðarslysum fækkar og greinilega mest þar sem starfsemin hófst einna fyrst. Í framhaldi af því hefur athyglin beinst meir að þróunarríkjum þar sem umferðarslysaváin er svo alvarleg að hún hreinlega hindrar þróun samfélaga og þjóða í átt til betri lífskjara og lífsgæða. Stjórnvöld margra þróunarríkja hafa þegar áttað sig á vandanum, þeirra á meðal hin indversku og kínversku sem nú styðja dyggilega við á risavaxnasta vegaöryggisverkefni heimsins hingað til. Í Kína er nú að hefjast öryggisrýni á stórum hluta kínverska vegakerfisins og verða hundruð þúsundir kílómetra öryggisgreindir á stuttum tíma. Kínversk stjórnvöld styðja dyggilega framtakið, enda sjá þau fyrir sér að fækkun slysa muni aflétta gríðarlegu álagi á sjúkrahúsa- og heilbrigðiskerfið.  Þetta er meðalfjölmargra umfjöllunarefna Reykjavíkurfundarins sem nú stendur yfir.

Þau tíðindi gerðust á fundinum í gær að John Dawson, fyrrv. vegamálastjóri Skotlands og upphafsmaður og frumkvöðull Euro RAP, sem hefur verið stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Euro RAP frá upphafi, óskaði formlega eftir lausn frá framkvæmdastjórastarfinu. Við því tók Stephen Stacey en John Dawson mun áfram gegna stöðu stjórnarformanns. Ennfremur ávörpuðu fundinn í gær þeir Sigurbeergur Björnsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu fyrir hönd ráðherra, og dr. Matthias Brinkmann sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.

Í dag, sumardaginn fyrsta, fara fundarmenn um Reykjanes m.a. til að kynnast íslenskum vegum og íslenskri náttúru. Aðalfundi Euro RAP lýkur á morgun, föstudag 24. Apríl.