Aðeins 30% lítilla bíla með ESC

http://www.fib.is/myndir/Skrens.jpg
 Samkvæmt nýrri markaðskönnun sem Bosch í Þýskalandi hefur látið gera er ESC stöðugleikabúnaður ennþá of sjaldgæfur í smábílum í Evrópu. Þrátt fyrir eindregin tilmæli allra aðila sem láta sig umferðaröryggi varða til kaupenda nýrra bíla um að velja nýja bílinn með ESC búnaði og til bílaframleiðenda um að setja ESC-búnað í alla bíla, þá sýnir rannsókn Bosch að einungis 30% nýrra seldra smábíla í Þýskalandi eru með ESC- búnaði. Þess skal getið að einmitt í Svíþjóð og Þýskalandi er ástandið hvað þetta varðar lang best í Evrópu.

Þriðji hver nýr seldur bíll í Evrópu er smábíll og minni meðalbíll. Þar af er tíundi hver í flokki þeirra minnstu.  Þrátt fyrir að smá- og minni meðalbílar séu þetta stór hluti allra seldra fólksbíla er ESC stöðugleikabúnaður ekki sjálfsagður staðalbúnaður í þeim. Það telst búnaðurinn hins vegar vera í bílum af meðalstærð og allt upp í flokk lúxusfólksbíla. http://www.fib.is/myndir/Bosch-ESC-3.jpg

Sé litið til

Evrópu í heild þá er ESC búnaður í 13% minnstu bílanna og 15% þeirra sem tilheyra næsta stærðarflokki fyrir ofan.  Einstök bifreiðaeigendafélög í álfunni, sem og heildarsamtök þeirra hafa eindregið mælst til þess við félagsmenn sína að þeir einfaldlega sniðgangi þá bíla sem ekki eru með ESC búnaði og hvetja bílaframleiðendur til að gera þennan búnaði að staðalbúnaði í öllum bílum. Ástæðan er sú að ESC kerfi tekur að hluta til við stjórn bílsins þegar hann skrensar og réttir hann af með því að hemla og slaka á hemlun á víxl á hverju hjóli um sig. Kerfið kemur með þessu í veg fyrir að ökumaður missi gersamlega vald á bílnum. Sem slysavörn telst þannig ESC kerfið vera lífgjafi sem jafna má við sjálf öryggisbeltin. Vegna þess hve mikilvægur öryggisbúnaður ESC er, telja systurfélög FÍB það gagnrýnivert að þennan öryggisbúnað skuli ekki vera að finna svo stórum hluta þeirra bíla sem einkum ungt fólk og ungt fjölskyldufólk ekur í, það er að segja smábílum og minni meðalbílum. http://www.fib.is/myndir/Bosch-ESC2.jpg

Samkvæmt nýlegri umferðarslysarannsókn sem ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur gert lenda ökumenn á aldrinum 18 til 25 ára í næstum tvöfalt fleiri umferðarslysum en 30-37 ára gamlir ökumenn. Flest slysanna hjá ungu ökumönnunum verða þegar bílarnir skrensa í beygju og fara útaf veginum. ESC búnaður dregur verulega úr hættu á slíkum slysum.

Í rannsókn Bosch er greint frá því að þótt ennþá sé ESC búnaður alltof sjaldgæfur í nýjum smábílum og litlum bílum þá sé þróunin þó í rétta átt því bílum með búnaðinum hafi undanfarin ár fjölgað jafnt og þétt og hlutfall nýrra bíla með ESC fari stöðugt hækkandi. Árið 2006 var ESC í um 77% allra fólksbíla í Þýskalandi. Hæst var hlutfallið þá í Svíþjóð þar sem 91% bíla eru með ESC.

Sérfræðingar EuroNCAP (European New Car Assessment Program) hafa tekið saman lista yfir bíla sem fáanlegir eru með ESC búnaði til að auðvelda almenningi að finna rétta bílinn. Úr listanum má lesa hvort ESC sé staðalbúnaður í viðkomandi bílum, fáanlegur sem aukabúnaður eða ófáanlegur með öllu. Listann er að finna á vef Euro NCAP hér.