Aðeins 8% nýrra bíla eru bæði umhverfismildir og öruggir

http://www.fib.is/myndir/ESP-tree.jpg
ESC stöðugleikabúnaður telst næst mikilvægasti öryggisbúnaður bíla á eftir öryggisbeltunum.

Sænska tryggingafélagið Folksam hefur, þrettánda árið í röð, tekið saman árlegan lista yfir þá nýja bíla sem teljast vera öruggir bílar. Af samantektinni má ráða að það er fremur fátítt að bílar séu bæði öruggir og jafnframt umhverfismildir því að einungis um átta prósent umhverfismildu bílanna flokkast sem öruggir.

Til að geta fyllt flokk öruggra bíla hjá Folksam þurfa bílar af árgerð 2009 að hafa hlotið fimm stjörnur í árekstursprófi EuroNCAP eða vera a.m.k. 20 prósent betri en meðalbíllinn í viðkomandi stærðarflokki, samkvæmt rannsóknum Folksam. Þá þurfa bílarnir að vera búnir ESC stöðugleikabúnaði og virkri hálshnykksvörn og ýlu sem gefur frá sér hljóð þar til beltin hafa verið spennt. Sjá nánar hér. Til að komast í flokk umhverfismildra bíla verða þeir að eyða litlu eldsneyti og þar með að gefa frá sér lítið af lofttegundinni CO2 í akstri. Hversu mikið hvorttveggja má vera ræðst af því í hvaða stærðarflokki bíll er. Þetta má sjá nánar hér.

Folksam leggur  áherslu á að fólk velji sér nýja bíla af kostgæfni því að nýju bílarnir eigi eftir að vera í umferðinni um mörg ókomin ár. „Ef allir kaupendur nýrra bíla velja þá bíla sem við mælum með myndu sparast minnst 30 mannslíf á hverju ári og 400 manns sleppa við að hljóta varanleg örkuml segir Anders Kullgren slysarannsóknastjóri Folksam.

Hér er að finna lista yfir þá bíla sem Folksam telur vera í senn bæði örugga og umhverfismilda.