Aðeins dýrustu geymarnir tíundaðir

Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju vill koma eftirfarandi á framfæri vegna verðkönnunar FÍB sem framkvæmd var í mars 2013 og birt á heimasíðu FÍB þann 26.03.2013.
 
   -Í könnununni er borið saman verð á 60Ah rafgeymum frá ýmsum söluaðilum og ljósaperum af gerðinni H4 og H7.  Askja býður upp á margar gerðir rafgeyma og pera, og er verðbilið breitt. Gæði rafgeyma og pera er mismunandi og ending þar af leiðandi líka, en Askja telur mikilvægt er að gefa viðskiptavinum val um mismunandi verð og gæðastig. Af einhverjum ástæðum eru verðin sem birt eru frá Öskju, aðeins þau hæstu og eru því villandi í samanburði við aðra söluaðila.
 
Rafgeymar
Í könnununni er birt verð á mjög sjaldgæfum 80Ah rafgeymi frá Öskju, tegund Mercedes Benz og er hann nefndur bæði fyrir Mercedes-Benz og KIA bifreiðar.  Vegna þessa er rétt að taka fram að engin Mercedes-Benz fólksbifreið á Íslandi er með 60Ah rafgeymi, en verið var að skoða þann flokk. Algengustu rafgeymar í Mercedes-Benz fólksbíla er 74 Ah rafgeymir sem kostar kr. 37.786.- og 100Ah rafgeymir sem kostar kr. 45.225.-  Mercedes-Benz rafgeymar eru ekki notaðir í KIA bifreiðar, eins og lesa má úr könnuninni, en  Askja flytur ekki inn sérstaka rafgeyma fyrir Kia heldur endurselur viðurkennda rafgeyma frá innlendum aðila, og kosta þeir 64Ah kr. 31.664.-
 
Ljósaperur
Í könnununni er borið saman verð á H4 og H7 perum frá ýmsum söluaðilum.  Í könnununni kemur fram verð á Long Life perum frá Öskju, sem eru vandaðar og endingargóðar perur.  Ódýrasta H7 peran sem Askja selur kostar hins vegar kr. 791.- en algengasta H7 peran kr. 2.020.- Ekki kemur fram í könnuninni að verð á perum er með ísetningu, þ.e. innifalið í verðum Öskju er ísetning peranna sem er framkvæmd af bifvélavirkja. Gildir þetta fyrir Mercedes-Benz og KIA Motors bifreiðar.
 
Það er því ljóst að verið er að bera saman ólíka hluti í könnununni þrátt fyrir að sölumaður Öskju hafi tíundað stærð rafgeymis og tegund peru. Mjög mikilvægt er þegar verðkannanir eru framkvæmdar að verið sé að bera saman epli og epli, og að forsendur á bakvið verð séu tíundaðar ef mismunandi þjónusta er innifalin frá söluaðilum. Askja fagnar því að FÍB framkvæmi verðkannanir sem þessar og mun í framtíðinni taka þátt í þeim, og vonast þá um leið  að vandað sé til verka í samanburði og forsendur krufðar ítarlegar.“

Aths. ritst.
Umrædd verðkönnun var gerð frá aðalskrifstofu FÍB í gegn um síma. Spyrjendur lögðu nákvæmlega sömu spurningarnar fyrir alla fulltrúa sem fyrir svörum urðu há söluaðilum. Í þeim fólst engin afstaða til hugsanlegs gæðamunar einstakra tegunda og gerða rafgeyma og ljósapera. Einungis var spurt um verð á algengustu aðalljósaperum og rafgeymum fyrir fólksbíla. Engu að síður er ljóst að í tilfelli Öskju hefur komið upp einhverskonar mismunandi skllningur hjá spyrjanda annarsvegar og svaranda hins vegar sem er mjög miður. Í framhaldinu verða því aðferðir við verðkannanir FÍB endurskoðaðar svo draga megi úr hættu á slíkt geti endurtekið sig.
   -SÁ