Áður Kewet - nú Buddy

Greint er frá því í norska bílamiðlinum BilNorge að 15 bílasölur nýrra bíla séu að hefja sölu á litlum rafbíl; Buddy. Þessi bíll er í rauninni fimmta kynslóð hins danska rafbíls Kewet El Jet sem kynntur var á Íslandi árið 1994 eða 1995. Tveir Kewet El Jet bílar voru þá fluttir til landsins og forstjóri og frumkvöðull framleiðslunnar, Knud Erik Vestergaard kom sérstaklega til landsins af því tilefni.

Hvað um þessa tvo bíla varð er fréttavef FÍB ekki kunnugt um en sá sem þetta ritar fékk annan þeirra lánaðan til reynsluaksturs í eina tvo sólarhringa og ók honum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Þetta var örbíll, ekki ósvipaður Smart en eitthvað breiðari, með sætum fyrir tvo við hlið ökumanns og örlítið farangursrými. Undirvagninn var galvaníseruð prófílagrind en yfirbyggingin úr plasti.

Segjast verður að bíllinn reyndist svona og svona þessa tvo sólarhringa. Höfuðgallinn var hversu afllítill hann var. Rafgeymarnir voru venjulegir blýgeymar, níðþungir. Rafmótorinn var 48 volta jafnstraumsmótor og aflið einungis 5 kílóWött. Í bílnum var fjögurra gíra gírkassi og besta aflnýtingin fékkst með því að láta mótorinn snúast eins hratt og mögulegt var og raunar var það best að „standa hann stöðugt í botni“ en skipta niður upp í móti í brekkum. En vegna þess hve aflið var lítið dró mjög úr hraða bílsins upp brekkur og ég minnist þess að við sátum tveir í honum fyrri morguninn á leið upp á Lyngháls. Geymarnir voru fullhlaðnir eftir nóttina og ég ók frá Vesturgötunni vestur á Grímsstaðaholt til að sækja vinnufélaga minn. Síðan var ekið austur Hringbraut og Miklubraut í morgunumferðinni með auðvitað fullum ljósum og miðstöðinni á til að halda framrúðunni nokkurnveginn lausri við móðu í haustrigningunni.

Erfiðlega gekk að ná grænni ljósabylgju og þurftum við að stansa og taka af stað aftur á hverjum einustu ljósagatnamótum á leiðinni. Þegar í Ártúnsbrekkuna kom dró mjög af bílnum og hraðinn datt niður í þetta 20-25 km á klst. Og enn versnaði það þegar ekið var upp Hálsabrautina því þar silaðist bíllinn á þokkalegum gönguhraða þegar best lét, öðrum bílstjórum til lítillar gleði. Mælir í bílnum sýndi þá að góður helmingur rafmagnsins væri uppurinn strax þarna. Allt tók þetta ferðalag okkar hátt í klukkutíma, eða minnst helmingi lengur en á venjulegum bensínbíl.

Bíllinn var svo í hleðslu allan daginn og gekk heimferðin ágætlega enda leiðin að mestu niðurávið. Leiðin lá á Grímsstaðaholtið á ný en síðan í miðbæinn niður Suðurgötuna. Þegar komið að Herkastalanum beygði ég upp Túngötuna og komst tæplega helming spottans frá Herkastala upp að Garðastræti. Þá var rafmagnið orðið of lítið til að knýja bílinn upp á Garðastrætið. Eftir smástund virtist hann hafa jafnað sig því að það tókst að mjaka honum upp og ná beygjunni til hægri inn í Garðastrætið. Þá var hann kominn á jafnsléttu og hafði það af að drífa sig nokkuð greiðlega niður að Vesturgötunni. En þá var aftur komin smá brekka. Bíllinn hafði það þó að mjakast upp Vesturgötuna og inn í bílastæðið við nr. 26.b þar sem honum var enn stungið í samband. Morguninn eftir endurtók sagan sig frá morgninum áður nokkurnveginn og þá þótt bílablaðamanni nóg reynsluekið og skilaði bílnum síðdegis þann sama dag.

Vart er því hægt að segja að þetta hefði verið skemmtilegur reynsluakstur né að bíllinn væri sérstaklega nytsamlegur í borgarumferðinni vegna þess hve skammdrægur hann var. En þetta var fyrsta kynslóð bílsins en af henni voru byggðir einir þúsund bílar. Nýjasta kynslóðin sem nú er komin í eigu Norðmanna, hlýtur að vera talsvert notadrýgri.

Frumkvöðullinn Vestergaard varð síðar gjaldþrota á ævintýrinu en Kewet bíllinn hélt áfram hjá nýjum eigendum og er nú byggður í Noregi, en Noregur er orðið mikið rafbílaland. Nýjasta kynslóðin kallast semsé Buddy. Í stað fimm kW jafnstraumsmótorsins er kominn 72 volta 13 kW mótor, miklu nýtnari á raforkuna en sá gamli. Gírkassinn er löngu horfinn, en blýgeymarnir eru vissulega enn til staðar en nú með miklu betra hleðslu- og afhleðslustýrikerfi sem satt að segja virkaði mjög báglega í gamla bílnum. Líþíum rafgeymar munu verða fáanlegir innan skamms.

-SÁ