Áður ókunnur pústsvindlbúnaður uppgötvast hjá Audi

Bandaríska loftgæðastofnunin CARB (California Air Resources Board) hefur uppgötvað áður óþekktan búnað til að falsa niðurstöður mengunarmælinga á dísilbílum. Reuters fréttaveitan greinir frá þessu og hefur eftir þýska vikublaðinu Bild am Sonntag.

CARB mun hafa mengunarmælt Audibíla sl. sumar í skoðunarstöð og uppgötvað búnaðinn í tilteknum gerðum sjálfskiptra dísilbíla. Hann virkaði þannig að þegar bílarnir voru ,,keyrðir” á keflum virkaði útblásturshreinsibúnaðurinn. Hann var tengdur stýri bílanna þannig að þegar stýrið var ekki hreyft inni á keflunum var hreinsibúnaðurinn virkur. En um leið og stýrinu var snúið 15 gráður eða meir, varð hann óvirkur. Þetta þýðir það að í venjulegri notkun stafar talsverðri loftmengun frá bílunum en einungis sáralítilli meðan hann er mældur inni á skoðunarstöð.

Að því er segir í frétt Bild Am Sonntag hætti Audi að setja þennan svindlbúnað í bíla í maí í vor, skömmu áður en CARB uppgötvaði hann. Ekkert hefur enn heyrst frá stjórnendum Audi um þetta mál né heldur frá bandarískum yfirvöldum.