Ætlar að ljúka hnattferð föður síns á Hyundai

 Á Kanaríeyjum býr ungur byggingarverkfræðingur, ættaður frá hafnarborginni Busan í Suður-Kóreu, sem hyggst „klára heimsreisu“ föður síns sem sigldi frá Busan einn síns liðs til Spánar fyrir um fjörutíu árum og ílengdist þar þótt ætlunin hefði verið að sigla umhverfis jörðina aftur heim til Busan.

Nú ætlar Chang-Hyun Moon, sonur Yuna, að klára ferðalag föður síns með táknrænum hætti með því að aka til Kóreu frá Kanaríeyjum á rafbílnum Hyundai Kona. Með í för verða ökumenn á rafbílnum Hyundai Ioniq EV og rafknúna vetnisbílnum Nexo.

Yuna var á yngri árum sjómaður á litlum fiskibáti og bjó og gerði út frá hafnarborginni Busan við suðausturhluta Kóreuskaga. Með Yuna blundaði þráin um að skoða heiminn og heimsækja fjarlæg lönd. Hann lét drauminn rætast. Dag einn leysti hann landfestar á bát sínum og lagði út á Japanshaf og áfram út á Kyrrahafið.

Þaðan hélt leiðin til Panama þar sem hann sigldi um skurðinn fræga og út á Atlantshaf. Þar tók Moon stefnuna til Kanaríeyja, þar sem hann hugðist hvíla sig vel enda hálfnaður með hnattferðina. En örlögin höguðu því svo til að ferðin varð ekki lengri og hefur hann búið þar æ síðan.

Um hálfan hnöttinn á rafbíl

Sonur hans, Chang-Hyun Moon, sem býr og starfar á Kanaríeyjum, ætlar nú að klára ferðalag föður síns og leggur hann af stað í dag, miðvikudag. Hann ætlar þó ekki að fara sjóleiðina nema að litlum hluta því til fararinnar hefur hann fengið afnot af rafbíl af gerðinni Hyundai Kona EV sem umboðið á eyjunum hefur lánað honum til ferðalagsins sem spannar alls um 17 þúsund kílómetra. Af eðlilegum ástæðum mun Moon ekki þurfa að kaupa einn lítra af jarðolíueldsneyti á leiðinni til Busan.

Á ferðalaginu ekur Moon um tuttugu lönd; Marokkó, Spán, Gíbraltar, Frakkland, Mónakó, Ítalíu, Sviss, Liechtenstein, Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland, Slóveníu, Króatíu, Tékkland, Pólland, Litháen, Lettland, Rússland, Kasakstan og til Kína, þar sem hann á langa ferð fyrir höndum áður en hann kemur að landamærum Kóreu.

Þá hefst síðasti leggurinn, ökuferðin suður Kóreuskaga þar til komið er heim til æskuheimkynna Yuna í Busan. Moon stefnir að því að koma þangað eftir tvo mánuði eða um miðjan júlí.