A. evrópsk þjófagengi ræna íhlutum úr bílum

Bílþjófar í Evrópu hafa í vaxandi mæli snúið sér að því að stela hlutum úr bílum, eins og rándýrum Xenon ljósum, loftpúðum, tölvum og stjórnbúnaði, hvarfakútum, felgum og jafnvel heilu mælaborðunum úr bílum. -Bestu bílarnir eru þeir einföldustu sem kosta minnst, sagði mikill bílamaður, hagfræðingur að mennt, þegar fjölskyldumeðlimur spurði hann ráða í bílakaupum.

Bílarnir verða sífellt flóknari tæknilega og með stöðugt meiri, flóknari og dýrari búnaði. Þegar bíllinn svo eldist og tölvurnar, skynjararnir og allur þægindabúnaðurinn byrjar að bila hættir bíllinn að vera skemmtilegur. Smávægileg bilun eins og sambandsleysi í raftengingu eða bilaður skynjari einhversstaðar getur valdið gangtruflunum, ruglað öryggiskerfi og stjórntölvur bílsins eða gert óvirkar að meira eða minna leyti. Bíll getur auðveldlega orðið ónothæfur og bilanaleit tekið langan tíma og kostað miklar fjárhæðir.

Þetta var rætt sl. vetur á fundi ritstjóra og blaðamanna hjá evrópsku bílaklúbbunum- systurfélögum FÍB. Fulltrúar hins þýska ADAC og fleiri kváðust verða varir við vaxandi óþol neytenda gagnvart þessu og að fleiri og fleiri sæktust eftir sem allra einföldustum bílum þegar komið væri að því að endurnýja bílinn. Í því ljósi bæri að skoða mikla og vaxandi eftirspurn eftir ódýrum en umfram allt einföldum bílum eins og Dacia (Renault), Citroen Cactus og mörgum fleiri. En hinn dýri búnaður í bílum nútímans á sér aðra skuggahlið:

Hinn flókni tæknibúnaður hefur vissulega gert það erfiðara að stela bílunum í heilu lagi. Því hafa bílþjófar í vaxandi mæli snúið sér að því að stela hlutum úr bílum, eins og hvarfakútum, felgum, rándýrum Xenon ljósum, loftpúðum, tölvum og stjórnbúnaði og jafnvel heilu mælaborðunum úr bílum. Þjófnaðir af þessu tagi standa nú fyrir helmingi þess samfélagslega kostnaðar sem verður til vegna þjófnaða á bílum og úr bílum í Svíþjóð.

Frá því í desember 2015 hafa 18 manns verið handteknir og dæmdir í Svíþjóð fyrir að stela hlutum úr bílum bæði einstaklinga og fyrirtækja. Þjófnaðirnir voru framdir víða um hið víðáttumikla land, m.a. í Stokkhólmi, Gautaborg og Borås. En hið sérstaka er að allir hinir handteknu og dæmdu eru frá einu og sama landinu sem er Litháen og flestir meira að segja frá sama staðnum í Litháen.

Fulltrúi tryggingafélagsins If segir við Auto Motor & Sport að samvinna lögreglu og tryggingafélaga hafi skilað góðum árangri. Hún felist m.a. í efldu landamæraeftirliti og því að sérmerkja einstaka hluta bíla sem þjófar sækjast eftir þannig að hægt verði að rekja og finna þá hvort sem þeir eru í gámum, farangri eða jafnvel búið að skrúfa þá í aðra bíla á leið úr landi.

Þessum varahlutaþjófnuðum hefur fjölgað mjög og árið 2015 var metár. En vöxturinn í þessari „atvinnugrein“ er þvílíkur að fyrstu fjóra mánuði þessa árs voru þjófnaðirnir orðnir jafnmargir og allt metárið 2015. Samanlagt virði þýfisins er talið nema 109 milljónum sænskra króna (1,6 milljarðar ísl. kr).

Talsmaður If segir að hjá þjófagengjunum teljist Svíþjóð vera gott land til að stela dýrum íhlutum eins og Xenon ljósum, loftpúðum, innbyggðum hljóm-, leiðsögu- og stjórntækjum úr mælaborðum bíla ásamt „meðafla“ sem getur verið hvarfar, felgur o.fl. Bílafloti Svía sé nýlegur og bílar flestir af vönduðum og vel útfærðum gerðum og því eftir miklu að slægjast. Auk þess séu líkur á að komast undan með þýfið góðar og refsingar vægar ef menn eru gómaðir. Þetta sé því í það heila tekið áhættuminni „starfsemi“ en viðskipti með eiturlyf og vopn þar sem refsirammar eru mun strangari.