Afgreiðslu samgönguáætlunar frestað

Ákvörðun þess efnis að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar til 1. febrúar á næsta ári hefur verið samþykkt af formönnum allra flokka á Alþingi. Ljóst var að tíminn fram að jólum var allt of knappur til að afgreiða jafn stórt mál sem samgönguáætlunin er. Upphaflega var stefnt að því að afgreiða áætlunina og hún yrði samþykkt fyrir áramót. Áætlunina þarf að ræða betur ofan í kjölinn og á þá sættust formenn þingflokka á Alþingi í gærkvöldi.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur á síðustu vikum haft til skoðunar drög að breytingartillögum meirihluta nefndarinnar sem gera ráð fyrir veggjöldum um allt land. Í því sambandi er átt við allar leiðir inn og út úr höfuðborginni sem og um allt land, einkum í kring um göng. Stjórnarandstaðan var ósátt með gang mála og setti sig alfarið gegn því að afgreiða samgönguáætlun fyrir jólahátíðina. Málið þarf í heild sinni meiri tími í umræðu því vanda þarf til verka í jafn stóru máli og hér um ræðir.

Breytingartillögurnar hafa ekki verið lagðar fram. Nokkrir þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkum gerðu alvarlegar athugasemdir við það að svo stórar grundvallarbreytingar væru lagðar fram þegar aðeins nokkrir dagar væru eftir af þingstörfum en stefnt var að samþykkt samgönguáætlunar fyrir áramót. 

Fram kom í máli Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að honum litist illa á innheimtuna. Runólfur sagði að með veggjöldunum bætist alls konar kostnaður við og svo sé alltaf óvíst hvernig gjöldin skili sér til vegagerðarinnar. Hann óttast viðbótarálögur á bifreiðareigendur og kallaði það mýtu að hægt væri að „taka svo mikið af útlendingnum.“ Stöðugt sé vitnað í það sem sérfræðingar segi án frekari útreikninga og útskýringa. 

Félag íslenskra bifreiðaeiganda sendi frá sér tilkynningu þar sem yfirstandandi hraðferð vegtolla í gegnum Alþingi er mótmælt. „Þessum nýju sköttum á bíla og umferð á bersýnilega að þröngva í gegn á sem stystum tíma til að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu. Þessi vinnubrögð eru fullkomlega óboðleg. “

FÍB leggst alfarið gegn vegtollum sem þau segja að mismuni vegfarendum eftir búsetu og ferðatilgangi og leggist þyngst á þá sem hafi minna aflögu. Verið sé að leggja nýja skatta ofan á háa skatta sem bílaeigendur og umferð beri nú þegar. „FÍB mun beita sér harðlega gegn öllum hugmyndum þingmanna um auknar álögur á bíla og umferð. “

Í tilkynningunni frá FÍB segir ennfremur að málsvarar skattheimtunnar hafa nefnt að þeir sem fari gegnum tollheimtuhliðin vegna daglegrar vinnu fái ríflegan afslátt. Upphæðin gæti verið 140 krónur. Ljóst er að sú upphæð dugar hvorki fyrir gjaldtökukostnaði né bankakostnaði. Verið er að blekkja almenning.

Ljóst er hugmyndir um innheimtu veggjalda þarf að ræða miklu betur og tímann fram í febrúar þarf að nýta eins og kostur er. Stjórnvöld þurfa að uppfræða almenning mun betur en gert hefur verið fram að þessu. Í þessu stóra máli þarf allt að vera upp á borðum og sýna þarf meira gegnsæi.