-Afl okkar er einstætt

Jean Todt forseti FIA, heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga, setti í morgun í London 23. alþjóðlegu ráðstefnu samtakanna um umferðarmál og hreyfanleika fólks (Mobility). Í setningarræðu sinni sagði hann að bifreiðaeigendafélögin 250 sem sameinuð eru innan FIA byggju sameiginlega yfir einstæðu afli til að láta boðskap sinn heyrast í málum sem varða umferðaröryggi í heiminum öllum.

Ráðstefna er haldin í London og er skipulögð af AA, hinu breska systurfélagi FÍB í samvinnu við önnur bresk bifreiðaeigendafélög og ferðafélög, umferðaröryggisstofnanir eins og EuroRAP, I-RAP og FIA Foundation stofnunina. Rástefnuna sækja fulltrúar 235 aðildarfélaga FIA hvaðanæva úr heiminum. Þar af er einn frá FÍB á Íslandi; Ólafur Kr. Guðmundsson.

„ Ég get fullyrt með nokkru stolti að FIA og aðildarfélög þess hafa tryggilega fest sig í sessi sem forystuafl í baráttunni gegn umferðarslysavánni í heiminum ásamt FIA Foundation stofnuninni. –Útnefning mín sem sérlegs sendifulltrúa aðalritara  Sameinuðu þjóðanna í umferðaröryggismálum er staðfesting þessa,“ sagði Jean Todt. „Innan okkar vébanda eru yfir 80 milljón meðlimir og þegar við tölum einum rómi er rödd okkar sterkari en nokkurs annars sem lætur sig umferðaröryggismál varða,“ Jean Todt sagði ennfremur að nú þegar átak Sameinunðu þjóðanna, Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum er rúmlega hálfnað, sé það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að rödd einstakra aðildarklúbba nái eyrum æðstu ráðamanna. Nú séu á vissan hátt tímamót og þau verði að nýta til að fækka  umferðardauðaslysum og -örkumlum verulega fyrir 2020. Aðildarfélög FIA voru aðal frumkvöðlar þess að ýta átakinu úr vör í Moskvu á sínum tíma og hafa æ síðan verið öflugstu stuðningsaðilar þess.

„Eins og á upphafsfundinum í Moskvu fyrir sex árum mun fjölmennt lið frá FIA sækja framhaldsfund æðstu manna og þjóðarleiðtoga um umferðaröryggi. Fundurinn verður haldinn í nóvember nk. í Brasilíu og við verðum að tryggja það að rödd okkar heyrist þar aftur,“ sagði Jean Todt.

Hinn árlegi heimsfundur FIA snýst um það að stilla saman strengi bifreiðaklúbbanna í heiminum og fjalla um nýjustu stefnur og strauma sem tengjast umferð og hreyfanleika fólks.  Einkunnarorð fundarins sem nú stendur eru Haltu ró þinni – vertu tengdur (Keep Calm and Stay Connected). Þar ræða fulltrúar bifreiðaklúbbanna strauma og stefnur í samgöngumálum og á hvern hátt framtíðin verður og hvernig þróunin get best gagnast almenningi. Umræðan litast um þessar mundir ekki síst af því með hvaða hætti sífellt virkari tenging farartækjanna um Internetið muni þróast og stefna og hvernig viðgerða- og aðstoðarþjónusta muni þróast. Fundinum í London lýkur á föstudag, 18. september.