Aflmesti Volvóinn til þessa

Volvo S60 og V60 Polestar.
Volvo S60 og V60 Polestar.

Polestar í Gautaborg í Svíþjóð er sú deild Volvo sem uppfærir Volvóbíla og breytir þeim úr venjulegum fólksbílum í keppnisbíla og ofursportbíla, ekki ósvipað AMG hjá Mercedes og Abarth hjá Fiat svo eitthvað sambærilegt sé nefnt. Nú er Polestar að byrja slíka vinnu við Volvo S60 og V60 gerðirnar. Eftir breytingarnar verða þessir virðulegu fjölskyldubílar orðnir að hraðskreiðustu og aflmestu Volvóbílum nokkru sinni.

Vélarafl þessara Pólstjörnu-Volvóbíla verður ekkert smáræði fyrir ekki stærri vagna - 367 hestöfl / 470 Newtonmetra togkraftur sem kreist verður út úr fjögurra strokka 2ja lítra vélinni með stórri pústtúrbínu, millikæli og forþjöppu  (kompressor), sérstökum knastásum, ventlum og undirlyftum. Í þessum hraðskreiðasta Volvo hingað til verður fjórhjóladrifskerfi frá Borg-Warner og átta stiga sjálfskipting. 0-100 viðbragðið verður 4,7 sek. og hámarkshraðinn verður takmarkaður með tölvubúnaði við 250 km hraða á klst.

Talsmaður Polestar segir að allar breytingar og frávik frá staðalbílnum miðist við það að bæta aksturseiginleikana og halda þyngd bílsins í skefjum. Tæknilega séð er þetta keppnisbíll að nánast öllu öðru leyti að sérstakt veltibúr er sett í þau eintök sem eingöngu verða notuð til keppni í WTCC keppnisflokknum en þar ætlar Volvo sér stóra hluti á næstunni með bílana.

Þó framleiðslan sé tæplega hafin er sala þegar komin á fullt á Polestarbílunum og er verðmiðinn eiginlega í stærra lagi því að á honum stendur 640 þúsund sænskar krónur eða um 9,8 milljónir ísl. kr. án skatta og gjalda.