Afnám löggildingar bifreiðasala vonbrigði – afturhvarf til fortíðar

Frumvarp til laga að fella niður skilyrði um leyfisveitingar fyrir sölu notaðra ökutækja, þ.m.t. kröfu um námskeið og próf fyrir bílasala hefur verið samþykkt á Alþingi. Lögin hafa þegar tekið gildi. Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, og Bílgreinasambandið, BGS, lögðust alfarið gegn þessum áformum atvinnuvega- og nýskoöpunarráðuneytisins og töldu þetta afar misráðið.

Sl. haust bentu FÍB og BGS á að verði þessi skilmálar afmundir komi ekkert í veg fyrir að svikahrappar hasli sér völl á þessum markaði og fari sínu fram, líkt og raunin hefur verið í nágrannalöndum okkar. Þess má geta að velta í sölu notaðra ökutækja hér á landi ár hvert er á bilinu 60-80 milljarðar. Fagaðilar í Evrópu horfðu sérstaklega til íslenska módelsins sem þeir töldu ákjósanlega leið til að bæta viðskiptasiðferði og neytendavernd í bílaviðskiptu. Að teknu tilliti til þessa er nýju lögin óskiljanleg með öllu.

Mikil samkeppni ríkir á þessum markaði og seljendur notaðra bíla hafa á engan hátt kvartað undan því að þurfa að afla leyfis til starfseminnar eða sitja námskeið í þeim efnum, þvert á móti. Löggildingar, skráningar og leyfisveitingar stjórnvalda hafa þann tilgang að tryggja almannahagsmuni með því að skilyrðum sé fullnægt. Kröfur um fagþekkingu skapa traust. Þær hófstilltu kröfur sem gerðar eru um leyfisveitingar til þeirra sem hafa milligöngu um sölu notaðra ökutækja veita almenningi öryggi og eru síður en svo til þess fallnar að skapa aðgangshindranir inn á markaðinn.

Bifreiðasalar sem fagaðilar þurfa að vera þjónustulundaðir og með þekkingu í samningagerð, bifreiðatækni, lögum og reglum. Nám fyrir bifreiðasala hefur falið í sér yfirferð laga og reglugerða sem gilda um bílasölu, kaupa- og samningarétt, veðrétt lausafjármuna, þinglýsingar, viðskiptabréfsreglur, vátryggingar ökutækja, opinber gjöld af ökutækjum og reglur um virðisaukaskattsbifreiðar.

Þá var farið yfir reglur um skráningu ökutækja, skoðun- og verðmæti ökutækja sem og fjármálaráðgjöf við kaupendur ásamt sölu- og samningatækni. Það er ljóst á þessari upptalningu að það er í mörg horn að líta og gríðarlega mikilvægt að sá aðili sem er að sýsla með eða veita ráðgjöf í þessum efnum hafi einhverja þekkingu þar til.

Með þessum lagabreytingum hefur mikill meirihluti Alþingins ákveðið að taka út ákvæði fyrri laga um löggildingarnámskeið og -próf fyrir bifreiðasala. Ekki þarf lengur að sækja um leyfi til yfirvalda til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki. Nú þurfa bílasölur ekki að vera með  starfsábyrgðartryggingu valdi milliganga bifreiðasala viðskiptavini tjóni. Tekin eru út ákvæði um að bifreiðasali skuli í hvívetna leysa störf sín af hendi í samræmi við góðar viðskiptavenjur og ákvæði um að gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör og að aðilum séu ekki settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Fellt er út að bifreiðasali beri ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs.

Það sætir furðu að fulltrúar almennings á Alþingi hafa nánast umræðulaust ákveðið að draga stórkostlega úr neytendavernd í bílaviðskiptum þrátt fyrir alvarleg varnaðarorð FÍB fyrir hönd neytenda og Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir hönd atvinnugreinarinnar.

Frekari breytingar sem gerðar voru á lögunum er hægt að nálgast hér: Lög um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar (einföldun regluverks).