Afskrifa 250 milljónir króna af hraðasektum ferðamanna á ári

Nýtt FÍB blað er núna í dreifingu til félagsmanna.  Meðal efnis er úttekt á stöðu hraðabrota með hraðamyndavélum yfir tíu ára tímabil.  Það er sláandi að í 95% tilvika hafa hraðabrot vegna bíla í eigu fyrirtækja verið felld niður. Árið 2018 voru yfir 11.000 hraðabrot í hraðamyndavélum vegna bílaleigubíla. 

Lang flestir bílstjóra bílaleigubíla sem aka of hratt framhjá hraðamyndavélum borga ekki sekt né fá tilkynningu um brotið.  Aðeins 1% einstaklinga með lögheimili á Íslandi komust undan því að borga sekt. Ríkissjóður verður af verulegum sektargreiðslum vegna niðurfellingar hraðasekta erlendra ferðamanna.  Um er að ræða hundruði milljóna króna árlega.  Alþingi hefur ekki tekið á þessari framkvæmd og sama á við um framkvæmdavaldið.

Fjórðungur hraðaksturssekta innheimtast ekki

Fram kom í féttum 2017 að lögreglan áætlaði að fjórðungur sekta vegna hraðaksturs við hraðamyndavélar innheimtist ekki.   Í flestum tilvikum er það vegna aksturs erlendra ferðamanna.  Varlega reiknað taldi lögreglan að árlega þyrfti að fella niður 160 milljónir króna vegna hraðasekta ferðamanna.  Þann 1. maí 2018 hækkuðu sektir vegna umferðarlagabrota umtalsvert.

 Minnsta hækkun hraðasekta var 50%.  Lægsta sekt fyrir þann sem ók á vegi með hámarkshraða 90 km/klst var 10.000 krónur en fór í 15.000 krónur.  Næsta sekt þar fyrir ofan var 30.000 krónur en fór í 50.000 krónur.  Miðað við áætlun lögreglunnar 2017 má gera ráð fyrir að afskriftir vegna ógreiddra hraðakstursskulda ferðamanna í ár verði a.m.k. 250 milljónir króna.

Farsi um hraðasektir

Er eðlilegt að sleppa því að innheimta árlega um kvartmilljarð í hraðasektir af erlendum gestum?  Þetta vinnur gegn allri skynsemi.  Væri ekki nær að nota þessa fjármuni í brýn verkefni t.d. aukna löggæslu?  Hvað með forvarnar- og umferðaröryggissjónarmið? Eiga jafnræðisreglur ekki við um hraðasektir vegfarenda?  Enginn ber ábyrgð og þetta gerist með fullri vitund löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Þessu er hægt að kippa í liðinn með lagabreytingu og bættu verklagi.