Afturgengnir draugabílar?

The image “http://www.fib.is/myndir/Bilhrae.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sú deild lögreglunnar í Hamborg sem framfylgir umhverfislögum hefur lagt hald á 24 bílafrá Danmörku sem búið var að greiða út endurvinnslugjald fyrir og átti að vera búið að eyða. Þegar bíll hefur verið afhentur til niðurrifs fær endurvinnslustöðin eða bílapartastöðin greitt endurvinnslugjald fyrir bílinn sem er um 18 þúsund ísl. krónur. Eftir það skoðast bíllinn sem sorp og er ólöglegt að flytja hann milli landa án sérstaks útflutningsleyfis. En bílhræin í Hamborg voru þar komin vegna þess að bílapartasalarnir höfðu ekki eytt bílunum og ekki heldur fengið sérstakt sorpútflutningsleyfi fyrir þeim heldur höfðu þeir lappað upp á þá til útflutnings og voru þeir á leið til bílainnflytjenda í Afríku og Mið-Austurlöndum, þar á meðal Líbanon. Samkvæmt lögum í Danmörku og öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins er þetta ólöglegt.
Lögreglan í Hamborg hefur nú sent bílana 24 til baka til Danmerkur og segist hafa örugga vitneskju um 133 aðra bíla sem komist hafa í hendur innflytjenda í Líbanon og til N. Afríku.