Áhættugreining tryggingafélaganna í skötulíki

Í nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um athugun á iðgjöldum og viðskiptaháttum tryggingafélaga kemur fram að greining tryggingafélaganna á viðskiptavinum eftir áhættu sé í skötulíki. Hún sé það skammt á veg komin að samræmi milli iðgjalda og tjónareynslu í bílatryggingum sé ekki greinilegt eins og það er orðað (pent) í skýrslunni. En í einu atriði hefur Fjármálaeftirlitið séð  ágætt samræmi í, en það er í gríðarlegri hækkun tryggingaiðgjalda á árunum 2006-2009. Mest varð hún milli áranna 2007 og 2008. 21,2 prósent, næst mest 2006-2007 17,6 prósent og minnst 2008-2009 7,9 prósent.

http://www.fib.is/myndir/Benz_klessa.jpg
Klesstur S-Benz.
http://www.fib.is/myndir/Beygla.jpg
Klesst Toyota.

Athugun Fjármálaeftirlitsins var gerð á síðasta ári, það er að segja eftir fjárhagshrunið og tilefnið því ærið. Miklar hræringar höfðu þá verið og voru á vátryggingarmarkaði. Nýtt tryggingafélag var orðið til úr öðru eldra og vátryggingasamningar því lausir. Þetta mun eiga við um Sjóvá sem var í lausu lofti um tíma. Mikil keppni upphófst um að ná þessum lausu samningum og forsvarsmenn félaganna sökuðu hverjir aðra um undirboð.

Athugunin náði til ökutækjatrygginga hjá Sjóvá-Almennum, TM, VÍS, og Verði tryggingum hf. og byggðist á lagaákvæðum um vátryggingastarfsemi sem segja að iðgjöld skuli vera sanngjörn í garð vátryggingataka og í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felst og eðlilegan reksturskostnað. Síðan segir m.a. annars í skýrslunni: „sérstök ástæða var til að skoða viðskiptahætti félaganna í umhverfi harðnandi samkeppni. FME sá ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við  viðskiptahætti tveggja vátryggingafélaga.“ Þessi félög munu vera Sjóvá og Tryggingamiðstöðin. Síðarnefnda félagið sá í það minnsta ástæðu til að senda frá sér frétt þess efnis að athugasemdirnar hefðu átt við þann hluta starfsemi sinnar sem kallast Elísabet. „Einnig leggur FME áherslu á að félögin gæti að afkomunni í markaðssókn sinni.“

FÍB hefur lengi talað fyrir því að iðgjöld bifreiðatrygginga séu tengd áhættu. Í öllum nágrannalöndum Íslands – helstu samanburðarlöndum okkar - eru tryggingaiðgjöld áhættutengd. Þannig eru iðgjöld þeirra sem eru byrjendur í bifreiðaakstri hærri en þeirra vanari og iðgjöld þeirra sem eiga sér óhappasögu í akstri er hærri, en lækkar með tímanum ef þeir sjá að sér og breyta akstursháttum sínum til hins betra. Ef  viðvaningur í akstri með nýtt ökupróf eða ungur maður með slæma óhappasögu vill eignast og tryggja mjög aflmikinn sportbíl í grannlöndunum, t.d. Bretlandi, þá þarf sá að greiða himinhá tryggingaiðgjöld. Ástæðan er einföld: Áhættan telst vera mjög mikil. Þá eru tryggingaiðgjöld af mjög dýrum bílum og/eða aflmiklum og hraðskreiðum bílum miklu hærri en af venjulegum fjölskyldubílum. Ástæða þ.ess er sú sama: Áhættan við að tryggja þá er meiri ekki síst vegna þess að mjög dýrt er að gera við þá eftir tjón. Bílar eru þannig líka metnir í áhættuflokka.

Slíkt áhættumat hjá íslensku tryggingafélögunum fyrirfinnst hins vegar alls ekki og áhættumat á ökumönnum er auk þess í skötulíki eins og Fjármálaeftirlitið hefur nú loks komist að. Forsvarsmenn tryggingafélaganna hafa löngum séð á því mikil tormerki að koma á áhættumatskerfi fyrir ökumenn og trúlega ekki dottið í hug að áhættumeta bíla heldur. Þessvegna hafa tryggingaiðgjöld af  litlum og meðalstórum fjölskyldubílum eins og t.d.Toyota Corolla og RAV4 jepplingum lengstum verið nánast þau sömu og af margfalt dýrari bílum eins og t.d. Range Rover, Mercedes Benz og Porsche jeppum og sportbílum. Tjónaviðgerðir á þessum dýru bílum geta kostað fleiri milljónir króna meðan sambærilegar viðgerðir á þeim fyrstnefndu nema kannski fáeinum hundruðum þúsunda króna þegar allt er talið.

Þessi iðgjaldastefna þýðir því einfaldlega aðeins eitt: Eigendur ódýru fjölskyldubílanna eru með háum iðgjöldum sínum að niðurgreiða tryggingar eigenda dýru bílanna. En um leið eru þeir einnig að niðurgreiða tryggingaiðgjöld vondra og varasamra ökumanna með litla reynslu og/eða slæma tjónasögu.