Áhrifa af Covid-19 gætti í ströngustu samkomutakmörkunum

Hagstofa Íslands birtir nú upplýsingar um losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands eftir árum og mánuðum frá 2016 til og með síðasta ársfjórðungi. Um er að ræða losun hitunargilda (CO2 ígildi) sem er vegin hitunaráhrif allrar losunar gróðurhúsalofts. Hagkerfi Íslands er hér skipt niður eftir aðal atvinnugrein rekstraraðila í 64 flokka en einnig er bætt við þremur flokkum vegna reksturs heimila í landinu.

Til þess að teljast inn í hagkerfisreikninga þarf fyrirtækið að vera með skráða kennitölu eða vera með aðsetur hérlendis. Rekstur íslenskra fyrirtækja erlendis telst því með inn í reikninginn svo fremi að kostnaður við rekstur og kaup efna (og tekjur) fari um íslenskt hagkerfi.

Fram kemur á vefsíðu Hagstofunnar að þessar tölur eru byggðar á loftslagsbókhaldi hagkerfisins (AEA bókhaldi) sem Hagstofan gefur út árlega í samræmi við reglur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. AEA bókhaldið byggir meðal annars á loftslagsskýrslu Íslands (NIR), sem Umhverfisstofnun skilar til loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, og orkubókhaldi Íslands sem Orkustofnun skilar til Alþjóða orkuráðsins (IEA).

Losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands var um 21,3% lægri á öðrum ársfjórðungi 2020 en á sama ársfjórðungi 2019 en á öðrum ársfjórðungi í ár gætti áhrifa Covid-19 á margan hátt á losun hagkerfisins. Losunin var um 1.328 kílótonn CO2-ígilda samanborið við um 1.688 annan ársfjórðung ársins 2019.

Mestur var samdráttur í losun í flugrekstri á öðrum ársfjórðungi 2020 eða um 57% samanborið við sama ársfjórðung árið 2019 enda voru samgöngutakmarkanir áberandi við landamæri hérlendis sem og erlendis.

Á meðan fyrstu reglur um samkomubann voru í gildi í apríl dróst umferð einkabíla mikið saman og þar með losun sem reiknast vegna notkunar heimilisbíla. Losun heimilisbíla í apríl 2020 var 34,1% minni en losun í sama mánuði árið áður. Losun í júní 2020 var síðan svipuð og í júní 2019 og nokkru hærri í júlí 2020 en í júlí árið áður.

Áhrifa af Covid-19 gætir því aðeins í þá mánuði sem ströngustu samkomutakmarkanir voru í gildi, en losun virðist ná svipuðum gildum og fyrri ár eftir að slakað var á takmörkunum.

Við mat á losun vegna vegasamgangna er tekið mið af sölu eldsneytis á bensínstöðvum og eignarskráningu bifreiða í febrúar og ágúst á hverju ári. Hér er eingöngu horft til losunar vegna bifreiða þar sem eigandi eða notandi er einstaklingur en ekki fyrirtæki. Við mat á losun vegna flugsamgangna er litið til kaupa íslenskra flugfélaga á eldsneyti og samsetningu flugflota. Einnig er tekið tillit til fjölda flugtaka, farþega og fjölda starfandi í greininni.