Áhugavert bílasafn í Danmörku

Bílaáhugafólk sem leið á um Danmörku á næstunni og hefur tíma aflögu til að sækja sér fróðleik og skemmtun ætti að líta við á ágætu bílasafni bílamannsins Ole Sommer við Nærum Hovedgade nr. 3 í Nærum norður af Kaupmannahöfn. Þar stendur nú yfir sérsýning helguð Saab en henni lýkur 29. apríl.

Þessi Saab sýning tengist ekki sérstaklega gjaldþroti Saab heldur á hún sér mun lengri aðdraganda. Á henni gefur að líta sýnishorn af öllum framleiðslubílum Saab frá upphafsárinu 1949 fram að gjaldþrotinu í desember sl. Ennfremur eru þarna sýndir ýmsir sérbílar og frumgerðir. Ástæða er til að vekja athygli á hjólhýsi sem framleitt var hjá Saab árin 1964-1968. Alls voru byggð rúmlega 400 slík hjólhýsi.

Sommer bílasafnið er hluti bílasölu- og –þjónustufyrirtækis og er yfirleitt opið á verslunartíma, en auk þess líka á sunnudögum milli kl 14-17. Aðgangur er DKR 50.

Ole Sommer hefur lengi rekið bílafyrirtæki og verið sölu og þjónustuaðili fyrir Jaguar og Volvo um áratugi. Þá hefur hann byggt talsvert marga bíla, bæði sport- og kappakstursbíla en einnig bíla til ýmissa sérnota, m.a. á flugvöllum og víðar. Sem ungur maður var hann lærlingur í bílasmíði í verksmiðjum Jaguar í Englandi en nam síðan vélaverkfræði og rak eftir það bílafyrirtæki sitt sem lengstum hefur verið eitt stærsta Volvo söluumboðið í Danmörku.