Akið varlega í ár og vötn

The image “http://www.fib.is/myndir/Skelfing.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nú í sumarblíðunni og meðan sumarfrí standa sem hæst eru mjög margir á ferðinni inn til fjalla. Í hlýindunum sem nú eru hér sunnanlands í það minnsta er mikil sólbráð á jöklum og ár þar af leiðandi vatnsmiklar, t.d. á leiðinni inn í Þórsmörk. Rétt er að minna þá sem eru á ferð yfir ár að hafa gát á hlutunum áður en ekið er út í vötnin stríð.
FÍB blaðið var á ferð í Þórsmörk í vikunni. Mjög mikið var í öllum ánum og urðu tvö slæm óhöpp með stuttu millibili þar sem vatn fór inn á dísilvélar í jeppum. Báðum var ekið talsvert greitt út í árnar og sullaðist vatn inn í loftinntök bílanna og þaðan inn í dísilvélarnar sem stöðvuðust og bílarnir sátu fastir út í miðri á. Annar jeppanna stöðvaðist út í hörðum straumnum og kona og barn sem í honum voru klifruðu óttaslegin út um glugga og upp á þak bílsins. Að fá vatn inn á dísilvél er mjög slæmt mál og nánast gefið að vélarnar stórskemmast, jafnvel eyðileggjast við það. Viðgerðakostnaður skiptir oftast hundruðum þúsunda króna eftir slíkt ævintýri.
Þeir sem ekki eru vanir vatnabílstjórar ættu að byrja á því að huga að því hvar loftinntakið í bílum þeirra er áður en þeir ætla að aka yfir á. Í mörgum nýrri jeppum er það talsvert neðarlega í vélarhúsinu, jafnvel í sömu eða svipaðri hæð og stuðarinn. Fari bílarnir í það djúpt vatn að það flytur yfir stuðarann er því mikil hætta á ferðum og ekki þarf vatnið að vera einusinni svo djúpt til að sullast inn í inntakið og inn á vélina ef ekið er of greitt útí á eða djúpan poll.
Þið sem eruð óvön skulið því ekki ana út í heldur stansa og spyrja þá vönu ráða og sjá hvernig þeir aka og fylgja svo þeirra fordæmi og þeirra leið yfir ána – og muna að setja í lága drifið ef það er fyrir hendi – í fjórhjóladrifið og læsa mismunadrifinu milli fram og afturhjóla og gjarnan á afturöxlinum líka ef það er hægt. Ef spólvörn er í bílnum þá munið líka að slá henni frá áður en lagt er í ána. Að lokum skal minnt á að vera ekki í akstri yfir ár og fljót á aðeins einum bíl þar sem engir eru nálægir til bjargar ef lla fer. Í fyrrnefndri Þórsmerkurferð vildi svo til að hópur fólks á um tugi jeppa voru í samfloti og björguðu báðum biluðu bílunum upp ár ánum á þurrt þannig að í það skiptið var ekki bráð hætta á ferðum.
The image “http://www.fib.is/myndir/Dreginn.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Jeppinn dreginn á þurrt úr beljandi jökulánni.