Akstur dísilbíla bannaður í Osló frá og með morgundeginum

Frá kl 6 í fyrramálið (7 að ísl. tíma) verður akstur dísilbíla bannaður á götum Oslóborgar að viðlagðri 1.500 kr. sekt (20.200 ísl. kr.). Bannið gildir þar til loftmengunarstigið í borginni minnkar frá því sem það er nú. Hugsanlegt er að banninu verði aflétt strax á miðvikudag, gangi veðurspár eftir sem gera ráð fyrir strekkingsvindi í borginni. 

    Frá banni þessu verða reyndar fjöldamargar undantekningar og eru þessar þær helstu:

  • Lögreglu- slökkvi- og sjúkrabílar.
  • Ökutæki hins opinbera..
  • Ökutæki á leið með sjúklinga á sjúkrahús eða á heilsugæslustöðvar. Gildir um einkabíla svo fremi sem hægt sé að framvísa staðfestri tímapöntun.
  • Leigubílar og aðrir löggildir fólksflutningabílar.
  • Strætisvagnar og önnur almannasamgöngutæki.
  • Akstur til og frá ferjum.
  • Þungaflutningabílar sem uppfylla Euro 6 mengunarstaðalinn.
  • Vinnubílar, t.d. bílar iðnaðarmanna. Framvísa verður gögnum sem staðfesta hversvegna þeir eru á ferðinni.
  • Tengiltvinnbílar með dísilrafstöð og minnst 40 km rafdrægi (td. Audi Q7 og Volvo V60). Dísilrafstöðin má þó ekki vera í gangi heldur verða þessir bílar að ganga á rafstraumi geymanna.
  • Aka má dísilbíl á verkstæði en ökumaður verður að geta framvísað tímapöntun frá verkstæðinu.

    Engu skiptir hvort dísilbílarnir í Osló falli undir Euro 6 staðalinn eða ekki né sú staðreynd að mengun frá Euro 6 dísilbílum sé í raun minni en frá mörgum þeim bensínbílum sem í umferð eru. Ástæðan er af hálfu borgaryfirvalda sögð sú að erfitt sé fyrir eftirlitsfólk að greina milli mengandi dísilbíla og minna mengandi.

    Akstursbannið gildir einvörðungu á þeim götum og vegum sem Oslóborg ber ábyrgð á. Það gildir þannig ekki á stofnbrautum eða þjóðvegum í Osló. Borið saman við Reykjavík þá myndi svona bann ekki ná til aksturs á þjóðvegunum í Reykjavík eins og t.d. Miklubraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut og Sæbraut.  

    Hinn konunglegi norski bílaklúbbur KNA hefur mótmælt þessu banni og spyr með hvaða rökum eigendur dísilbíla sem t.d. búa í miðborg Osló, séu settir í ferðabann frá og að heimilum sínum með þessum hætti og hvernig og engin ráð fylgja banninu um hvar þeir eigi að geyma bíla sína sem eru staddir utan við borgina og ekki ná heim í tæka tíð áður en bannið brestur á í fyrramálið.  -Við áttum okkur heldur ekki á því hvernig borgarráð Oslóborgar lætur sér detta þetta í hug og samþykkir að vega að tilteknum borgurum sínum með þessum hætti. Einungis um helmingur íbúa borgarinnar á bíl einkabíl og enn færri dísilbíl. Að þeim er nú vegið með bönnum og hótunum um fésektir, segir Børre Skiaker formaður KNA.