Akstur í útlöndum

http://www.fib.is/myndir/Borgarumferd.jpg
Umferð getur verið mjög þétt á hrað-
brautum, ekki síst í grennd við stórborgir.
http://www.fib.is/myndir/Farsimakall.jpg
Þungar sektir liggja við notkun farsíma
í akstri og ölvunarakstri víðast hvar í
Evrópu.
http://www.fib.is/myndir/GPS-taeki.jpg
Ódýr og handhæg leiðsögutæki hafa
losað ökumenn undan kortalestri undir
stýri.
http://www.fib.is/myndir/Lesakort.jpg
....en kortin standa nú samt enn fyrir sínu.
http://www.fib.is/myndir/Vatnsakstur.jpg
Í sumum löndum gildir tilgreindur há-
markshraði ekki þegar akstursaðstæður
eru slæmar, heldur verður þá að aka
hægar.

Akstur í útlöndum þarf ekki að vera neitt hættuspil bara ef fólk gætir þess vel og vandlega að fara að lögum og reglum og hefur hugann að fullu við aksturinn. Best tryggir maður öryggi sitt og annarra með þessu og með því að muna eftir því að ákveðnar umferðarreglur eru breytilegar frá einu landi til annars. Þótt mikið hafi verið gert af því að samræma umferðarreglur og umferðarskilti um alla Evrópu þá er samt ennþá mikið óunnið í þeim efnum. Einmitt þess vegna leitast bifreiðaeigendaklúbbarnir hver um sig að uppfræða félagsmenn sína sem best og koma mikilvægum uplýsingum á framfæri við þá. Þessvegna hefur FÍB haldið námskeið í akstri og ferðalögum erlendis og birt greinar og ábendingar til fólks í FÍB blaðinu og hér á fréttavefnum. Þessvegna er þessi grein skrifuð og birt.

Fyrst er það að segja að ábyrgir, góðir og athugulir ökumenn á heimavelli eru yfirleitt góðir ökumenn hvar svo sem þeir kunna að leggja leiðir sínar. Í því að vera góður ökumaður erlendis felst ekki síst það að hafa góða almenna kunnáttu og þjálfun í akstri, vita nákvæmlega hvert skal halda og stefna og vera meðvitaður um að ýmsar aksturs- og umferðareglur kunna að vera aðrar en þær sem maður er vanur á heimavelli. Góð aksturskunnátta nýtist allsstaðar og ódýr og góð GPS leiðsögutæki hafa losað ökumenn að miklu leyti undan þeirri erfiðu kvöð að þurfa að rýna í vegakort sí og æ. En þrátt fyrir að búið sé á undanförnum árum að samræma umferðarlög á Evrópska efnahagssvæðinu er ennþá umtalsverður munur á milli þeirra í ýmsum veigamiklum atriðum. Vissir þú til dæmis að í sumum löndum er hámarkshraði breytilegur eftir því hvort veður er gott eða slæmt? Heldur þú að allir þýskir ökumenn viti af því að að þeir eigi yfir höfði sér fangelsisvist ef þeir aka yfir 160 km á klst. á hraðbraut, sem er fyllilega löglegt í þeirra eigin heimalandi?

Eitt er það svið sem nánast engin samræming hefur orðið á milli landa, en það varðar búnað sem ökumönnum ber að hafa meðferðis í bílnum. Þannig er misjafnt eftir löndum hvort lögskylt sé að hafa aðvörunarþríhyrning (einn eða tvo) meðferðis í bílnum, Hvort öryggisvesti (eitt eða jafnvel eitt fyrir hverja manneskju í bílnum) í sterkum lit og endurskini skuli vera í bílnum, hvort varadekk skuli vera í bílnum, eða þá hvort skuli eða megi aka á negldum vetrardekkjum að vetrarlagi eða ekki. Í sumum löndum er krafist sérstakra merkinga á bíla sem eru með farangur sem skagar út fyrir fram- eða afturenda bílsins, (eins og t.d. reiðhjólastatíf). Í öðrum löndum eru slíkur farangur og jafnvel merkingar ólöglegar. Reglur um farangur af þessu tagi, hvernig sem þær annars eru, gilda í flestum tilvikum um húsbíla, húsvagna og tjaldvagna og eftir þeim verður að fara hvort sem farartækið er skráð í viðkomandi landi eða ekki.

Mörg umferðarskilti (um hámarkshraða, stöðvunarskyldu, biðskyldu o.s.frv.) eru nokkurnveginn hin sömu í öllum löndum eða í það minnsta svo lík, að þau eru skiljanleg.  Á hinn bóginn getur gegnt öðru máli um hverskonar upplýsinga- og leiðbeiningaskilti (t.d. með nöfnum borga og bæja og áttir og stefnur). Þessi skilti eru oft utan algengustu staðla. Blár og grænn litur er ýmist notaður til að tákna hraðbrautir eða þjóðvegi eftir því hvaða land á í hlut. Og stundum er texti hafður á leiðbeiningarskiltum í stað auðskijanlegra merkja – verulega bagalegt ef maður skilur ekki orð í viðkomandi tungumáli.

Ýmis merki í borgum geta jafnvel verið breytileg frá einni evrópskri borg til annarrar, jafnvel innan sama lands. Merki sem tákna takmarkanir á hvar, hvenær og hvernig má leggja eru yfirleitt nokkuð skýr en öðru máli gegnir hins vegar um frekari útskýringar í rituðu máli um tímalengdir og allskyns takmarkanir. Þær geta verið ill- eða óskiljanlegar öðrum en heimamönnum. Lögregla og stöðuverðir eru í mörgum evrópskum borgum mjög ötulir við að ýmist setja læsingar á bíla sem er ólöglega lagt eða jafnvel að flytja þá burt og gefa þá bílinn ekki frjálsan aftur fyrr en búið er að greiða sekt. Sú staðreynd að þú ert útlendingur og skildir ekki mis ljós fyrirmæli á skiltunum breytir hins vegar engu og gefur þér engan rétt. Bifreiðaeigendaklúbbarnir hafa árum saman þrýst á stjórnvöld í þessum efnum, bæði hvert í sínu heimalandi og alþjóðlega, að útrýma þessu misræmi og þar með auka öryggi allra ökumanna í Evrópu, hvar sem þeir eru staddir. En meðan misræmið og óvissan viðgengst þá ættu félagsmenn að leita hver til síns klúbbs. FÍB hefur upplýsingar um flest sem varðar akstur og ferðalög í helstu ferðalöndum Íslendinga og leiðbeinir sínum félagsmönnum eftir bestu getu. Ennfremur geta FÍB félagar leitað til systurklúbba FÍB í viðkomandi löndum sem veita þeim allar sömu upplýsingar og þjónustu sem þeir veita eigin félagsmönnum. Sérhver bifreiðaeigendaklúbbur innan heildarsamtakanna FIA hefur aðgang að OTA sem er upplýsinga- og gagnabanki FIA. Í þennan upplýsingabanka er stöðugt safnað nýjustu upplýsingum um allt viðkomandi akstri og ferðalögum. Þessar upplýsingar má nálgast hjá öllum klúbbunum innan FIA.

 En þótt þú sért fær í flestan sjó, hafðu alltaf nokkur meginatriði í huga:

 - Kynntu þér umferðarlög og umferðarreglurnar sem gilda í því eða þeim löndum sem þú ætlar að heimsækja. Vertu klár á hámarkshraðamörkum og hvaða búnaður skal vera til staðar í bílnum.

- Vertu klár á því hvaða viðurlög eru við hverskonar umferðarbrotum, ekki síst brotum eins og að tala í farsíma í akstri, aka án þess að hafa ökuljós kveikt, gefa ekki stefnuljós t.d. þegar skipt er um akrein eða ekið inn á hraðbraut, hegða sér rangt í akstri í hringtorgum (aðrar reglur en á Íslandi), aka of nærri næsta bíl fyrir framan.

- Hafðu ökuskírteinið alltaf meðferðis og sömuleiðis skráningarskírteini bílsins og tryggingaskjöl.

- Gakktu úr skugga um hvernig þú átt að bregðast við og hvað þér ber að gera ef þú verður sakaður um að hafa brotið umferðarlög.

- Vertu búinn að útbúa lista með símanúmerum hjálpar- og neyðarþjónustuaðila áður en þú legur af stað í ferðalagið.

- Virtu og farðu í einu og öllu eftir þeim lögum og reglum sem gilda um áfengi og akstur. Mundu að besta ráðið er það að forðast algerlega áfengi sólarhring áður en þú ætlar að setjast undir stýri.

- Skrifaðu hjá þér þýðingu helstu orða sem líklegt er að komi fyrir á umferðar- og leiðbeiningarskiltum meðfram vegum; orða eins og hjáleið, vegamót, lokaður vegur, á, veggjöld, lokaður vegur, o.s.frv.