Akvegir í stað ferju

Undirbúningur að bílvegi um hið 20 km langa Femernsund milli dönsku eyjarinnar Lolland  og þýsku eyjarinnar Femern er í fullum gangi enda hefur danska þingið ákveðið að vegurinn verði að veruleika. Upphaflega var gert ráð fyrir því að brú yrði byggð yfir sundið. Síðan hafa komið upp hugmyndir um jarðgöng eða blöndu hvors tveggja. Framkvæmdin verður samkvæmt áætlunum tekin í notkun árið 2020.

Stofnað hefur verið sérstakt félag um framkvæmdina, ekki ósvipað Speli sem boraði Hvalfjarðargöngin og hefur rekið þau síðan. Félagið um vegtengingu um Femernsund - hinn danski Spölur - nefnist Femern A/S og á þess vegum fara nú fram verkfræðilegar og kostnaðarlegar greiningar á þeim kostum sem til greina koma. Ástæða þess að menn skoða nú veggöng í stað brúar eða brúa, er sú að umhverfisverndarsamtök, einkum þýsk, hafa lagst eindregið gegn brú vegna þess að hún muni hafa víðtæk umhverfisáhrif og valda breytingu á lífríki sundsins. Umhverfisverndarmenn eru hins vegar sáttir við jarðgöng.

En það er meira en að segja það að bora jarðgöng þarna vegna þess að undir botni sundsins eru djúp setlög og langt niður á klöpp. Af þeim sökum verða boruð göng bæði gríðarlega dýr og hugsanlega ekki nógu traust. Skárri kostur þykir því nú að smíða göng á landi og sökkva þeim síðan niður á botninn. Samkvæmt nýrri skýrslu um málið er það vel innan getumarka nútíma veg- og byggingartækni.

Ef marka má skýrsluna þá sýnast boruð göng ekki koma til greina því að þau séu alltof dýr. Áætlað verð þeirra er 50,8 milljarðar danskra króna. Göng sem byggð eru í hlutum á landi og sökkt á botninn hins vegar er áætlað að munu kosta 40,7 milljarða danskra króna.

http://www.fib.is/myndir/Femern-boret-tunnel.jpg
 

Göng undir Femernsund verða að uppfylla allar kröfur sem gerðar eru nútíma vegganga. Í raun verður þau þreföld. Tvær aðskildar akbrautir verða fyrir bílaumferð hvor í sína átt og hvor um sig með tveimur akreinum og neyðarakrein í fullri breidd. Undir akbrautunum verða svo akbrautir fyrir sjúkra-, björgunar- og slökkvibíla. Meðfram akbrautunum verða loftþéttir gangar eða flóttaleiðir en þangað getur fólk flúið ef slys verða og brunar. Þriðju göngin verða svo fyrir járnbrautarlestar með svipuðum frágangi.