Álag og stóraukin umferð

Það væri einsdæmi í heiminum ef við myndum byggja upp öflugt vegakefi til að mæta þörfum ferðamanna
Það væri einsdæmi í heiminum ef við myndum byggja upp öflugt vegakefi til að mæta þörfum ferðamanna" segir Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur

Einkennileg þröngsýni og aðgerðarleysi Reykjavíkurborgar

Fyrir liggur fjárveiting frá ríkinu um byggingu mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.  Gatnamótin eru á þjóðvegi í þéttbýli þannig að Vegagerðin ber ábyrgð á framkvæmdinni og kostnaði.  Nú vill svo einkennilega til að borgaryfirvöld í Reykjavík vilja ekki framkvæmdina og veita ekki framkvæmdaleyfi. 

 

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að brýnt væri að byggja þessi mislægu gatnamót til að mæta stórauknu umferðarálagi.  Til viðbótar þá eru gatnamótin meðal þeirra hættulegustu á landinu varðandi alvarleg slys. 

Í Morgunblaðinu í morgun er fjallað um þessi mál og rætt við Hjálmar Sveinsson, formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.  Hjálmar segir þar m.a. að það sé sýn borgaryfirvalda að til framtíðar sé betra að auka vægi almenningssamgangna í stað þess að fara í dýrar framkvæmdir á gatnakerfinu. Fram kemur í fréttinni samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu að aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið nær 30% frá 2005 til 2015 og um 25% frá árinu 2012. Hjálmar er spurður um það hvort ekki þurfið að bregðast við þessari miklu umferðaraukningu með stórum framkvæmdum í gatnakerfinu.  Hjálmar segir þriðjung aukningar síðustu ára vera vegna umferðar ferðamanna á bílaleigubílum.  ,,Það væri einsdæmi í heiminum ef við myndum byggja upp öflugt vegakefi til að mæta þörfum ferðamanna á bílaleigubílum í stað þess að beina þeim í almenningssamgöngur“.  Ef rétt er eftir Hjálmari haft þá eru þessi viðbrögð dæmi um sérhagsmunapólitík, þröngsýni og aðgerðafælni.

Það er jákvætt og nauðsynlegt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og víðar.  Sama á við um uppbyggingu göngu- og hjólastíga.  Sú uppbygging á ekki að vera á kostnað umferðarflæðis og öryggis vegfarenda sem aka um götur og vegi landsins.  Aukin umferð ferðamanna er raunveruleg umferð sem bitnar á íbúum og kjörnum fulltrúum ber að sinna öryggi og umhverfi kjósenda.  Fjölgun ferðamanna eykur tekjur og fjölbreytni í samfélaginu.  Þessari þróun verður að mæta með markvissri styrkingu innviða. 

Hönnunarhugmynd við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

Svona líta gatnamótin út í dag.