Álagning á bensín hækkað um 17% frá því í sumar

Heimsmarkaðsverð á bensíni hefur lækkað gríðarlega undanfarna mánuði og vikur. Í júní síðastliðnum kostaði tonnið af bensíni á Rotterdammarkaði 1.044 dollara, en er nú komið niður í 578 dali. Meðalverð á bensíni til íslenskra neytenda í júní var 247 krónur á lítra. Á þessu sama tímabili (júní-desember) hefur íslenska krónan gefið eftir gagnvart Bandaríkjadal.  

FÍB heldur utan um daglega þróun heimsmarkaðsverðs og útsöluverðs eldsneytis hér á landi. Álagning og flutningskostnaður olíufélaganna á Íslandi, sem öll selja bensínið á svipuðu verði, var um 37 krónur á hvern lítra fyrstu níu mánuði ársins. Það sem af er desember er meðalálagningin hins vegar orðin yfir 44 krónur á lítra sem er 17% hækkun frá meðaltali álagningar fram á haust. 

Dísilolían á heimsmarkaði var dýrust í febrúar á þessu ári. Tonnið var þá á um 950 dollara en er núna innan við 600 dollarar. Meðalverðið á dísilolíu í febrúar var 241,40 krónur á lítra en kostar í dag 214,90 krónur. Meðaltal álagningar og flutningskostnaður af hverjum dísillítra fyrstu þrjá ársfjórðungana 2014 var 38,30 krónur. Það sem af er desember er álagning og flutningskostnaður um 6 krónum hærri.

Það er mat FÍB að þrátt fyrir miklar lækkanir á eldsneyti til íslenskra neytenda þá hafi olíufélögin ekki lækkað í samræmi við lækkunina á heimsmarkaði. 

http://fib.is/myndir/Bensin2014.jpg
http://www.fib.is/myndir/bensin2014.jpg