Álagning á eldsneyti með hæsta móti

Olíufélögin lækkuðu í gærkvöldi verð á bensíni og dísilolíu. Bensínlítrinn lækkaði í verði um kr. 2,10. Eftir lækkunina er algengt lítraverð í sjálfsafgreiðslu kr. 249,50. Dísilolíulítrinn lækkaði um kr. 1,10. Algengasta lítraverð olíunnar eftir lækkun er 259,60.

FÍB fylgist náið með eldsneytisverði bæði hér heima og á heimsmarkaði nánast frá degi til dags. Samkvæmt nýjustu úttekt FÍB er lækkunin nú minni en búast hefði mátt við þar sem ljóst er að álagning olíufélaganna á bensínið hefur náð nýjum hæðum í þessum nóvembermánuði og er tæpum sex krónum yfir meðalálagningu ársins á hvern lítra.

Meðalálagning + flutningskostnaður á bensín það sem af er nóvembermánuði er ríflega 38 krónur á hvern lítra, sem er eins og áður er sagt, rúmum 6 krónum yfir meðalálagningu ársins. Meðalálagning ársins eða þess sem af er af því, er kr. 32,30.

Til samanburðar þá var meðalálagning + flutningskostnaður ársins 2011 kr. 32 á bensínlítrann. Árið 2010 var meðalálagningin kr. 31

Kostnaður neytenda vegna álagningar og flutningskostnaðar á hvern lítra af dísilolíu er nú kr. 37,60 en meðalálagning þess sem liðið er af árinu er rúmlega 36 krónur. Til samanburðar þá var meðalálagning ársins 2011 kr. 33,50 á lítra og meðalálagning ársins 2010 ríflega 32 krónur á lítrann.