Álagningin hjá Costco mun minni en við höfum átt að venjast

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali við mbl.is að meðalálagning íslensku olíufélaganna undanfarinna ára á hvern lítra hafa verið um 40 krónur. Þar sem verðið er hins vegar lægst er hún talin vera um 27 krónur.

Nú er rúm vika síðan að Costco hóf sölu á eldsneyti í Kauptúni í Garðabæ, þar sem eldsneytisverðið er töluvert lægra, hafa einhverjir velt því fyrir sér hver álagning fyrirtækisins sé í raun og jafnvel hvort hún sé nokkur.

Miðað við forsendur á heimsmarkaði í dag og gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal þá má gera ráð fyrir að álagning á bensínlítra hjá Costco sé á milli 18 og 20 krónur frá heimsmarkaðsverði.  Inni í þeirri álagningu er heildsöluálag og dreifing frá birgðastöð Statoil - líklega í Örfirisey - að Costco í Kauptúni.

Hér er um að ræða  álíka viðskiptalíkan og þekkist við sölu á eldsneyti í tengslum við stórmarkaði erlendis. Eldsneytið hjá Costco er selt með álagningu en hún er mun minni en við höfum átt að venjast hér á landi en samræmist kjörum sem neytendum stendur til boða víða um heim. 

Innkoma Costco mun hafa áhrif á bensín- og dísilverð hjá íslensku olíufyrirtækjunum. Þrátt fyrir að Costco reki einungis eina eldsneytisstöð þá er hún bæði stór og verðlagið hagstætt þannig að Costco gæti hæglega náð til sín um og yfir 5% af heildarsölu bifreiðaeldsneytis hér á landi.