Aldrif gefur falska öryggistilfinningu

Sítengt aldrif bætir engu við öryggi í umferðinni samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sænska tryggingafélagsins Folksam. Slysa- og óhappatíðni aldrifsbíla er er sú sama og bíla með drifi á einum öxli. En þeir fjórhjóladrifnu koma oftar við sögu í hraðakstursslysum en hinir.

Á árunum 2013-2014 jókst hlutfall aldrifsbíla í nýskráningum bíla  í Svíþjóð um 30 prósent. Ein af ástæðunum fyrir því að fólk velur fjórhjóladrifið er að þeir eru duglegri í erfiðri færð og það er óumdeilt. En margir trúa því að þeir fjórhjóladrifnu séu líka öruggari í umferðinni. Það er hins vegar ekki svo ef marka má niðurstöður nýju rannsóknarinnar. Hún náði til 40 þúsund slysa og óhappa allt frá 2003 sem lögregluskýrslur voru til um.  

Niðurstaðan sýnir að fjórhjóladrifnum bílum er nákvæmlega jafn hætt við slysum og bílum með drif á tveimur hjólum. Engu breytir hverrar gerðar vegurinn er né hvort bíllinn sé með skrikvörn eða ekki. En rannsóknin sýnir líka það sem fáir höfðu reiknað með fyrirfram – að fjórhjóladrifnir bílar hafa oftar lent í slysum en tveggja hjóla drifs bíla þar sem ökuhraði var mikill. „Það virðist því vera svo að þótt fjórhjóladrifið sé betra þegar færð er erfið, þá veiti það ökumönnum líka falska öryggiskennd svo þeir vanmeti vegyfirborðið og veggripið,“ segir  Matteo Rizzi sem er slysarannsakandi hjá Folksam.

Eina af ástæðum hinnar fölsku öryggiskenndar segi Rizzi vera þá að fjórhjóladrifið leyni raunverulegu ástandi vegarins. Fjórhjóladrifsbíll auki hraðann fljótar á hálku en bíll með tveggja hjóla drifi og því finnist ökumanni engin hálka vera og gáir ekki að sér og stillir ekki hraðann af í samræmi við aðstæður. Ef síðan þarf að nauðhemla þá sé það einfaldlega þannit að hemlunarveglengd sambærilegra bíla er mjög svipuð og fjórhjóladrif eða ekki fjórhjóladrif breyti engu til eða frá. Hann ráðleggur því bílakaupendum að gleypa ekki við fullyrðingum sölumanna um að fjórhjóladrif þýði meira öryggi í umferðinni heldur velja sér nýjan bíl út frá staðreyndum og eigin forsendum.