Algengasta dánarorsökin

- Frétt frá Umferðarstofu

Umferðarstofa hefur tekið saman tölfræðilegar upplýsingar frá Hagstofunni og slysaskrá Umferðarstofu sem sýna annarsvegar dánarmein ungs fólks á Íslandi á aldrinum 17 - 26 ára og hinsvegar dánarmein fólks á aldrinum 27 - 36 ára. Stuðst er við tölur á 10 ára tímabili frá 1999 til 2008.

Ef skoðuð eru helstu dánarmein fólks á aldrinum 17 - 26 ára kemur í ljós að umferðarslys eru afgerandi algengasta dánarorsök kvenna og er hún tvöfalt algengari orsök en sjálfsvíg sem að er næst algengasta orsök. 16 konur í þessum aldurshópi létust í umferðarslysum en helmingi færri þ.e. 8 af völdum sjálfsvíga. Hjá ungum karlmönnum eru sjálfsvíg hinsvegar algengasta dánarorsök eða 71 tilfelli en umferðarslys koma þar næst á eftir í 45 tilfellum. Það eru mun fleiri karlmenn eða 195 sem létu lífið í þessum aldurshópi en konurnar  voru 61. Ekki er mikill munur á hlutfallslegri tíðni dauðsfalla af völdum umferðarslysa innan hvors hóps fyrir sig en þau eru um fjórðungur hjá báðum kynjum.

Þegar tölur um dánarmein beggja kynja á aldrinum 17 - 26 ára eru lagðar saman kemur í ljós að það eru mestar líkur á að ungt fólk deyi af völdum sjálfsvíga og umferðarslysa. Þegar eldri hópurinn er skoðaður, þ.e. 27 - 36 ára er skoðaður, kemur hinsvegar í ljós að mikil breyting á sér stað hvað varðar helstu dánarorsakir í samanburði við yngri hópinn. Þar er krabbamein (æxli) orðið  næst algengasta dánarmeinið í 50 tilfellum en sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði er í 60 tilfellum enn algengasta dánarmeinið. Í eldri hópnum eru umferðarslys þriðja algengasta orsök með 26 tilfelli en þau voru 61 í yngri hópnum.

Samtals eru umferðarslys og sjálfsvíg dánarmein í 55% tilfella í yngri hópnum en 38% tilfella eldri hópsins.  Það er því ljóst að með markvissu og víðtæku átaki til fækkunar umferðarslysum og sjálfsvígum væri hægt að auka lífslíkur fólks í þessum aldurshópum til muna - sérstaklega yngri hópsins.  Nánari upplýsingar um þetta má sjá hér í töflu og súluriti.