Algjört hrun í bílasölu á Bretlandseyjum – salan ekki minni síðan 1946

 Samdráttur í bílasölu á Bretlandseyjum í apríl nam 97% í apríl og þarf að fara allar götur til ársins 1946 til að finna sambærilegan samdrátt. Kórónavírusinn varð þess valdandi að verksmiðjur og bílaumboð á Bretlandseyjum hafa verið meira og minna lokuð um fimm vikna skeið.

Breksir fréttamiðlar greina frá því að hrun í bílasölu hafi gríðarleg áhrif á allan efnahag í landinu en annan eins skell er varla hægt að finna í sögunni. Bresk stjórnvöld ætla í vikunni að tilkynna aðgerðir sem lúta meðal annars að stuðningi til að rétta bílaiðnaðinn við í landinu.

Breski bílaiðnaðurinn er stærsti vöruútflutningur landsins. Þess má geta að í febrúar 1946, aðeins nokkrum mánuðum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, seldust aðeins 4.044 nýir bílar í Bretlandi. Salan núna er litlu meiri, alls 4.200 bifreiðar.

Það kannski lýsir best hversu ástandið er alvarlegt að stærsta bílaverksmiðja Bretlands, rekin af Nissan í Sunderland, mun ekki hefja framleiðslu á nýjan leik fyrr en í júní.