Alla athyglina við aksturinn

Það er óþægilega algengt í umferðinni að sjá bíla sem virðast vera nánast stjórnlausir eða stjórnlitlir í það minnsta. Þegar betur er aðgætt kemur oftast í ljós að ökumaðurinn er upptekinn við að bauka við farsíma sinn, ýmist að tala í hann eða þá að lesa tölvupósta eða skoða eitthvað á Netinu. Sá sem þessi orð ritar horfði upp á slíkt tilvik í morgun þegar bíll kom aðvífandi eftir hliðargötu, hunsaði biðskyldu og hársbreidd munaði að hann keyrði niður mann á reiðhjóli sem rétt náði að víkja sér undan, sem betur fór. Maðurinn á bílnum var upptekinn við að gaufa við farsíma sinn og með alla athygli sína bundna við það verk en ekki við aksturinn.

Umferðarráð,  lögregla og tryggingafélög í Danmörku eru þessa dagana í þriggja vikna herferð gegn þessum farsíma-athyglisbresti hinna akandi og er kjörorð herferðarinnar  „Kør bil, når du kører bil” sem merkir það að fólk skuli hafa allan hugann við aksturinn og ekkert annað þegar það er úti að keyra. Herferðin stendur til 5. október og er þetta myndband hluti hennar.  

-Bifreiðaakstur krefst fullrar athygli og hún er ekki til staðar hjá þér þegar þú blaðar í skjölum, skrifar og lest smáskilaboð eða tölvupósta á farsímanum eða stillir GPS tækið meðan þú keyrir, segir Ursula Friis verkefnastjóri danska umferðarráðsins við tímaritið Motor.  Hún segir að allt of mörg umferðarsys eigi sér stað þegar hinir akandi eru á þennan hátt með hugann víðsfjarri akstrinum og sjá ekki aðra vegfarendur. –Akstur krefst fullrar og óskiptrar athygli þinnar, segir hún.