Allt að 2079 prósenta verðmunur á stýrisendunum

Í frétt hér á fib.is sl. fimmtudag var vakin athygli á geypilegum verðmun á stýrisendasetti í bæði framhjól BMW 520i árgerð 1992. Settið kostaði kr. 99.160,- í umboðinu, BL. Verkstæði í Hafnarfirði útvegaði varahlutina og setti þá síðan í bílinn. Verð hlutanna með inniföldum 30 prósenta afslætti var kr. 17.998. Í prósentum talið er það munur upp á 451 prósent.

   Eigandi verkstæðisins í Hafnarfirði vildi ekki svara spurningum FÍB blaðsins um hver væri innflytjandi varahlutanna, hvernig verðið á stýrisendunum hefði myndast, hvert væri innkaupsverðið, og hver væri heildsölu- og smásöluálagningin. Sagði það trúnaðarmál. En þegar verðlag þessara nákvæmlega sömu varahluta var athugað í okkar næstu grannlöndum kom aftur í ljós verulegur munur. Verð þeirra hjá þýskri varahlutaverslun sem einnig selur á Netinu var næst meðallagi þess sem athugun FÍB leiddi í ljós. Hjá henni kostaði stýrisendasettið kr. 4.552,-  Miðað við verð ,,Original“ varahlutanna hjá umboðinu er munurinn hvorki meira né minna en 2079 prósent.

   En þar með er ekki öll sagan sögð. Munurinn er líka verulegur á verði stýrisendanna sem hjá verkstæðinu kostuðu kr. 17.998,-. Hjá þýsku varahlutaversluninni kosta þeir miklu minna eða kr. 4.552,-. Í prósentum talið er það 295 prósenta munur.

   Í verðsamanburði á varahlutum milli umboða og óháðra varahlutaverslana er af hálfu umboðanna jafnan fullyrt að mikill gæðamunur réttlæti verðmuninn. Það sé mikill gæðamunur milli ,,Original“ varahluta og eftirlíkinga. Vissulega getur verið ýmislegt til í því – stundum. En í fyrsta lagi er erfitt að réttlæta allt að tvö þúsund prósenta verðmun með slíku. Í öðru lagi skal á það minnt að bílar eru samsettir úr miklum fjölda hluta sem flestir framleiddir eru af undirframleiðendum í útboðum. Meðal þekktra undirframleiðenda má nefna Bosch, Brembo, SKF, FAG, og marga fleiri. Remsa á Spáni er t.d. einn stærsti framleiðandi hemlaklossa og hemlaborða í Evrópu og það má ganga að því nokkuð vísu að það séu bremsuklossar frá Remsa í mörgum, ef ekki flestum nýjum Volkswagen bílum í álfunni. Þessir undirframleiðendur selja oftast sömu vörur undir eigin vörumerki til óháðra varahlutaverslana og verðið til neytenda er annað og lægra en ,,Original“ verðið hjá umboðunum. Eini munurinn er í umbúðunum. Varan er sú sama.

   Verðkönnun FÍB á eftirmarkaðs-stýrisendunum í BMW bílinn fyrrnefnda í Evrópu leiddi í ljós talsverðan verðmun þar einnig, þótt hann væri hvergi nálægt þeim mun sem í ljós kom á Íslandi á nákvæmlega sömu hlutum. Lægsta verðið reyndist í vefverslun í Luxembourg en verðið í fyrrnefndri þýskri vefverslun var í meðallagi. Hér á landi kom einnig í ljós mikill verðmunur, ekki bara milli umboðs og almennra varahlutaverslana heldur líka milli þeirra. Sjá nánar í eftirfarandi töflu:

Verð á stýrisendasetti í BMW 520i árg. 1992

Umboð                 Bílaverkst.#        Munur

99.168                   17.998                +451%

Umboð                 Þýsk verslun       Munur

99.168                  4.552                    +2079%

Bílaverkst.#        Þýsk versl.           Munur

17.998                  4.552                    +295% 

Stilling hf.           Þýsk versl.           Munur

12.290                  4.552                    +170% 

Bílaverkst.#        Stilling                   Munur 

17.998                  12.290                  +46%

Umboð                Stilling hf.            Munur 

99.168                  12.290                  +707%

# 30% afsláttur innifalinn.