Allt að 87% hækkun stöðugjalda í miðborginni boðuð

Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að beina því til borgarráðs að gjald fyrir bílastæði í miðborginni verði hækkað og að gjaldskyldur tími verði lengdur. Og það er engin smáræðis hækkun sem ráðið vill að gjöldin hækki – 67 - 87 prósent.

Tillögur þessa ráðs eru þær að klukkutíma stöðugjald hækki úr 150 krónum klukkutíminn í 250 krónur (67%) á gjaldsvæði 1; miðborginni . Á gjaldsvæði 2 hækki það úr 80 kr. í 150 kr. (87%). Jafnframt lengist gjaldskyldur tími þannig að á virkum dögum sé gjaldskyldur tími kl. 9-18 en er nú milli kl. 10-18. Á laugardögum vill ráðið að gjaldskylda byrji líka kl 9 á morgnana í stað kl 10 og endi kl 16, en ekki kl 13 eins og nú. Samþykki borgarráð tillögu umhverfis- og samgöngunefndar hefst nýja gjaldtakan 15. apríl nk.

Á vef Reykjavíkurborgar er þetta réttlætt með því að vitna í erlendar rannsóknir sem sýni að bílastæði séu lengur upptekin ef stöðugjald er lágt. Verðhækkun ætti því að tryggja meira framboð af stæðum í miðborg Reykjavíkur sem sem er sagt verða til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini, kaupmenn og aðra rekstraraðila. Þessu eru kaupmenn og rekstraraðilar í miðborginni ekki sammála. Þeir segja að hin fyrirhugaða hækkun yrði aðför að versluninni í miðborginni.

Á vef borgarinnar má ennfremur ráða að flytjendur tillögunnar eru siglt fólk sem hefur komið í erlendar borgir. Vitnað er nefnilega til þess að í erlendum borgum á borð við Kaupmannahöfn, Osló og Helsinki sé margfalt dýrara að leggja í miðborginni og gjaldskyldur tími enn lengri. Ekki hafa þeir hins vegar tekið eftir því að í öllum þessum nefndu borgum eru almannasamgöngur allt aðrar og betri en í Reykjavík þannig að íbúar þar hafa aðra og betri valkosti en Reykvíkingar. Þessi rök eiga því tæpast við hér.

Egill Helgason blaðamaður sem býr ásamt fjölskyldu sinni í miðborg Reykjavíkur gagnrýnir tillögu ráðsins harðlega á vefsíðu sinni og segir tillöguna fyrst og fremst beinast gegn íbúum miðborgarinnar og gestum þeirra. Hún muni og bitna á þeim sem eru af veikum mætti að reyna að halda uppi verslun á svæðinu – það sé ekki eins og hún standi með sérstökum blóma í kreppunni.

Í fyrrnefndri frétt á heimasíðu borgarinnar  er talsvert gert úr því að bílastæðahús borgarinnar séu ódýr kostur en vannýttur. Gerður er samanburður á því hvað kostar að leggja í þau í Reykjavík og í Kaupmannahöfn m.a. Svo gæti virst sem verið sé að undirbúa jarðveginn fyrir stórfelldar gjaldahækkanir þar einnig. Við höfum reyndar áður spáð því að það verði gert innan tíðar, eða eftir að rekstur bílastæðanna undir tónlistarhúsinu Hörpu voru falin sérstöku hlutafélagi. Talsmenn þess hafa þegar látið í ljós að rekstur þeirra sé afar erfiður vegna „ósanngjarnrar“ samkeppni við bílastæðahús og bílastæði borgarinnar sem  séu allt of ódýr. Þar liggur í loftinu að lögð verði fram kvörtun vegna þessarar „ósanngjörnu“ samkeppnisstöðu  og síðan verði stórfelldri hækkun bílastæða borgarinnar gjalda skellt á í fyllingu tímans til að gera Hörpustæðin „samkeppnishæf.“ Kannski er þessi umrædda hækkun upphaf að slíkri „sérhannaðri“ atburðarás sem nú sé að hefjast.