Allt samþykkt

Sl. föstudag komst það endanlega á hreint að kaupsamningur Spyker í Hollandi við General Motors um Saab getur gengið fram. Aðalfundur hlutafélagsins um Spyker samþykkti samninginn nánast einróma og sænska fjármálaráðuneytið lagði sömuleiðis blessun sína yfir fjármögnunina og samþykkti ríkisábyrgð á henni.

 Loks hefur svo Evrópski fjárfestingabankinn EIB, samþykkt 400 milljón evra lán til Saab. Það fá á að nota til rannsókna og tækniþróunar, ekki síst þróunar umhverfismildrar bíltækni.

 Maud Olofsson atvinnumálaráðherra Svíþjóðar er hin ánægðasta með að Saab sé nú að því er virðist kominn á beinu brautina. Hún sagði á blaðamannafundi á föstudag að markmið hennar hafi alltaf verið að sjá til þess að peningum skattborgara yrði ekki sóað í vitleysu, en jafnframt að verja störf í bílgreininni. Eins og nú sé komið, hafi starfsmenn Saab raunverulega möguleika á því að koma Saab á fulla siglingu á ný.