Alþýðurafbíll frá GM

Chevrolet Bolt, nýr rafbíll frá General Motors er til sýnis á bílasýningunni í Detroit sem nú stendur yfir. Þetta er hreinn rafmagnsbíll, svipaður að stærð og rafbíllinn BMW i3 en mun fást á lægra verði á Bandaríkjamarkaði en i3. Uppgefið drægi Bolt er 320 km samkvæmt bandarískri staðalmælingu á eyðslu. Það gæti þýtt að uppgefið drægi samkvæmt evrópsku NEDC mæliaðferðinni yrði um 500 km.

En hvað stærð bílsins varðar þá er hún nægileg til að mæta daglegum þörfum hjóna eða sambýlinga með eitt til tvö börn. Hjá GM binda menn greinilega vonir við bílinn, sem kemur í almenna sölu um mitt þetta ár. Þeir telja nefnilega að hér sé kominn fyrsti rafmagnsfólksvagn Ameríku og kannski Evrópu síðarmeir líka.

Þegar er búið að verðleggja Chevrolet Bolt og er það um 30 þúsund dollarar eða kring um fjórar milljónir króna. Ekkert hefur enn verið gefið upp hvenær bílsins er að vænta á Evrópumarkað. Gera má ráð fyrir því að menn vilji sjá fyrst hvernig viðtökurnar verða í Bandaríkjunum áður en byrjað verður að spá í Evrópumarkaðinn af alvöru og hvort hann verði yfirleitt markaðsettur þar undir Chevrolet merkinu eða sem Opel.