Ályktun frá landsþingi FÍB

Samgöngumál er ein af grunnstoðum samfélagsins. Í ár er gert ráð fyrir að rösklega 70 milljarðar króna renni í ríkissjóð úr vasa bíleigenda. Á sama tíma á aðeins að verja um 30% af þessum skatttekjum til viðhalds og nýbyggingar vega. 

Landsþing FÍB, sem haldið var á dögunum,  hvetur komandi ríkisstjórn til að taka sig verulega á í þessum málaflokki. Ljóst er að bara til að halda í horfinu varðandi núverandi vegakerfi þá þarf að minnsta kosti að verja 35 milljörðum króna árlega til viðhalds og uppbyggingar vegamannvirkja. Viðhald og uppbygging vegakerfisins skilar sér ríkulega til samfélagsins í heild.  Öruggari vegir draga úr slysum, auka öryggi og lífsskilyrði landsmanna og treysta uppbyggingu um land allt.  Betri og öruggari vegir eru lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu. 

Landsþing FÍB varar ennfremur við hugmyndum um miklar hækkanir á eldsneytissköttum og nýja skatta í formi vegatolla. Eldsneytiskostnaður er veigamikill þáttur í framfærslu heimilanna og hækkun skatta á eldsneyti eykur verðbólgu með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum skuldum og þyngri afborgunum.  Hækkanir á eldsneytissköttum koma verst niður á tekjulægri fjölskyldum  og íbúum á landsbyggðinni sem oft þurfa að sækja nauðsynjar, þjónustu og félagsstarf um langan veg. 

Landsþing hefur æðsta vald í málefnum FÍB og er haldið annað hvert ár.  Rétt til setu á landsþingi sem fulltrúi með atkvæðisrétt eiga allir fullgildir félagar í FÍB. FÍB eru frjáls hagsmunasamtök vegfarenda sem um 17 þúsund fjölskyldur eiga aðild að. FÍB býður fram krafta sína og vonast eftir góðu samstarfi við kjörna fulltrúa og stjórnvöld varðandi stefnumótun til framtíðar í samgöngu-, neytenda- og öryggismálum.