Amazon langbakurinn fimmtugur

Þessa dagana eru 50 ár síðan Volvo Amazon langbakurinn sem Svíar nefndu herrgårdsvagn, var fyrst kynntur á bílasýningu í Stokkhólmi.

Amazon herragarðsvagninn varð mjög vinsæll bíll hjá Svíum og sömuleiðis nafnið, en það yfirfærðist á aðra langbaka og kallast þeir jafnan síðan herragarðsvagnar meðal Svía. Í auglýsingum og kynningu á þessari nýju gerð skrifuðu kynningarfulltrúar Volvu eftirfarandi um nýja bílinn snemma árs 1962:

„Nýi herragarðsvagnin er glæný bílgerð hjá Volvo þótt leitast hafi verið við að nýta í eins miklum mæli og mögulegt var þá þætti sem einkenna hinn góðkunna Amazon. Útkoman er aflmikill og rúmgóður fjölskyldubíll með óvenjulega mikla flutningsgetu. 

http://www.fib.is/myndir/Undanfarinn-V.Duett.jpg
Undanfari Amazon langbaksins var
Volvo PV 444/544 Duett.

Fernar dyr og tvískiptur flekinn fyrir dyrum að flutningsrýminu eykur enn á notagildið ekkert síður en útlitshönnunin, vönduð smíð bílsins, hinir öruggu aksturseiginleikar og rekstrarhagkvæmnin. Markmiðið var frá upphafi að skapa rúmgóðan fyrir fjölskyldurl til notkunar til langferða og í frítíma – notadrjúgan bíl sem líka getur nýst í atvinnurekstri. Þessi bíll er orðinn að veruleika. Hann heitir Volvo 221 Amazon."

Vélin í bílnum var B18-vélin sem áður var komin fram í eldri Volvo gerðunum PV 544 (Volvo krypplingnum)og langbaksútgáfu hans sem nefndist Volvo Duett. B18 vélin reyndist afburða endingargóð og slitsterk. Hún var upphaflega 75 hestöfl en síðar komu öflugri útfærslur hennar sem voru allt upp í rúmlega 100 hö.

Fyrsta árgerð Amazon herragarðsvagnsins, 1962 árgerðin, kostaði á núvirði um það bil 160 þúsund sænskar krónur sem jafngildir tæplega þremur milljónum ísl. króna.  

Volvo Amazon bílarnir voru framleiddir árin 1956 til 1970. Alls voru byggð 667.323 eintök í ýmsum útfærslum – sem fólksbílar (stallbakar) og langbakar, sportlegar útgáfur og jafnvel rallútgáfur og sérstyrktir lögreglubílar. Síðasti Amazon herragarðsvagninn sem byggður var er með framleiðslunúmerið 73 220. Hann var keyrður beint af færibandinu inn í Volvo bílasafnið í Gautaborg og þar er hann enn til sýnis.