Annasöm verslunarmannahelgi

Eins og undanfarin tæp 60 ár hélt FÍB hélt úti öflugri neyðarþjónustu við vegfarendur um verslunarmannahelgina. Þau fjöldamörgu mál sem komu til úrlausnar hjá FÍB aðstoð þessa helgi tókst að leysa á farsælan hátt enda er þjónustunet FÍB þéttriðið og nær til landsins alls.

Nokkur erfið tilvik komu upp þar sem bílar biluðu alvarlega. Í slíkum tilfellum sá FÍB aðstoð um að senda dráttarbíla á staðinn og flytja bilaða bílinn á næsta verkstæði. Þegar um meiriháttar bilanir var að ræða, hafði neyðarvakt FÍB aðstoðar milligöngu um að útvega varahluti eða viðgerðaraðila og dráttarbíla.

Mjög margir voru um helgina eins og svo oft áður tilbúnir að vera á vakt við að þjónusta samborgara sína um þessa helgi og bílaumboðið IH lánaði góðfúslega aukabíla til vegaþjónustu FÍB aðstoðar og Spölur veitti bílum FÍB aðstoðar  heimild til að fara um Hvalfjarðargöngin án endurgjalds. Öllum þessum aðilum færir FÍB sínar bestu þakkir.

Mjög mikill fjöldi erlendra bíla og annarra farartækja er á ferð um Ísland á þessu sumri, trúlega meiri en nokkru sinni áður. Flest erlendu farartækin koma til landsins með ferjunni Norrönu sem hefur verið nánast fullskipuð í allt sumar. Erlend farartæki geta auðvitað bilað eða lent í óhöppum og slysum, en langflestir erlendu ferðamannanna sem ferðast á eigin farartækjum eru félagar í erlendum systurklúbbum FÍB. Þeir leita því á náðir FÍB þegar í nauðir rekur og er sumarið í sumar þegar orðið hið annasamasta í sögu félagsins hvað varðar aðstoð við erlenda ferðamenn.