Árás gegn heimilunum

Verð á bílaeldsneyti var til umfjöllunar á fundi efnahags og viðskiptanefndar alþingis í morgun mánudag. Það er vel og óskandi að nefndin taki sómasamlega á málinu og jafnvel komi vitinu fyrir stjórnvöld í framhaldinu því afleiðingar þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt á valdatíma sínum eru ekki frýnilegar: Útreikningar FÍB leiða í ljós að árlegur eldsneytiskostnaður meðalstórs fjölskyldubíls hefur hækkað um 219.000 krónur síðustu fjögur ár.

Af þessum 219 þúsund krónum hirðir ríkið 100 þúsund kall. Ríkið hefur í ofanálag við stórfelldar hækkanir á heimsmarkaðsverði eldsneytis hert skattheimtu sína á eldsneyti en reynt hefur verið að hylja þessa staðreynd rykmekki með tali um að hlutfall skattheimtu til vegaframkvæmda hafi stórlækkað. Kjarni málsins er einfaldlega sá að mánaðarleg eldsneytisútgjöld meðal fjölskyldu eru nú 12 þúsund krónum hærri en fyrir fjórum árum. Á þessum fjórum árum hefur bensín hækkað um 80% eða úr 137 krónum í 248 krónur. Almennt verðlag hefur hækkað mun minna en þetta eða um 35 prósent.

Skattheimta á bensín sl. 4 ár

http://www.fib.is/myndir/Bensin-yfirlit.jpg

Hinn napri veruleiki er að ríkið hirðir nú af venjulegri meðalfjöl-skyldu hvorki meira né minna en 100 þúsund krónum meira í eldsneytis-sköttum en það gerði fyrir fjórum árum. Því meir sem eldsneytið hefur hækkað á heimsmarkaði, þeim mun meiri hefur skattheimtan orðið, ekki síst í formi virðisaukaskatts sem leggst ofan á innkaupsverð eldsneytisins, álagningu olíufélaga, vörugjöld, kolefnisskatt og flutningsjöfnunargjald, bensín- og olíugjald. Skatturinn með hið „umhverfismilda“ nafn kolefnisskattur er nýr. Fullyrða má að ekki sé einni einustu krónu af honum varið til umhverfisverndar af nokkru tagi.

Á þessum fjórum árum hefur ríkisvaldið algerlega hunsað beiðnir um hlutfallslega lækkaða skattheimtu og ábendingar um áhrif hækkana á fjárhag fjölskyldna og á atvinnustig, á atvinnuvegina og þjóðarhag yfirleitt. Það hefur greinilega og þvert á móti litið á hækkandi heimsmarkaðsverð sem kærkomna búbót fyrir ríkissjóð.

Eldsneytisskattarnir hafa hækkað mis mikið þessi fjögur umræddu ár. Mest hlutfallslega hefur vörugjaldið á bensínið hækkað, eða um 164 prósent sem er í krónum talið rúmlega 15 krónur á lítra. Bensíngjaldið sem er föst krónutala og ætlað sérstaklega til vegaframkvæmda, hefur hækkað næst mest eða um tæplega 20 prósent sem er um kr. 6,50 á lítra. Loks hækkaði svonefnt flutningsjöfnunargjald lítilsháttar. Þá hefur nýr skattur, svonefndur kolefnisskattur bæst við. Hann kemur inn árið 2010 og er kr. 2,60 fyrsta árið, hið næsta hækkar hann í 3,80 og um síðust áramót hækkaði hann upp í kr 5 á lítrann.

Ofan á allt þetta og innkaupsverðið og álagningu olíufélaganna kemur svo 25,5 prósenta virðisaukaskattur (var áður 24,5%) þannig að nú kostar bensínlítrinn 248 krónur en kostaði fyrir fjórum árum 137 krónur og skattheimta ríkisins komin í tæpan helming þess verðs sem bensínið kostar úti á bensínstöð.

 Ef tekið er dæmi af fólksbíl sem eyðir níu lítrum á hundraðið og er ekið 15.000 kílómetra á ári, þá kostaði bensínið á þennan bíl 15.500 krónur á mánuði fyrir fjórum árum en kostar nú tæplega 28 þúsund krónur – 12.500 krónum meira.

Bíll sem eyðir aðeins 9 lítrum á hundraðið að meðaltali er vissulega mjög sparneytinn bíll. Ef við tökum dæmi af bíl sem eyðir lítilsháttar meiru, eða 11 lítrum á hundraðið þá lítur dæmið þannig út nú að mánaðarlegur bensínkostnaður er 34 þúsund krónur en var tæpar 19 þúsund krónur fyrir fjórum árum. Munurinn er 15 þúsund krónur á mánuði.