Árekstraprófunarstöð Volvo 10 ára

Um þessar mundir eru tíu ár síðan sérstök sjálfstæð árekstursprófanastöð  Volvo hóf starfsemi. Stöðin er í höfuðstöðvum Volvo Personvagnar í Torslanda, útborg Gautaborgar í Svíþjóð og heitir fullu nafni Volvo Cars Crash Safety Centre. Stöðin er í sérhannaðri byggingu þar sem eru mjög fullkomin tæki til árekstursprófana og rannsókna og mannskapurinn sem þarna starfar er úrvalslið fremstu sérfræðinga í heiminum á sviði bílaverkfræði og slysavarna.

 Í stöðinni eru um 400 bílar árekstursprófaði á hverju ári og á tíu ára afmælinu er svo komið að alls hefur 3000 bílum verið fórnað í þágu bætts öryggis fyrir fólkið í bílnum. Markmið stjórnenda Volvo er einfalt – núll-lausnin í hnotskurn – sú að frá og með árinu 2020 þurfi enginn að láta lífið í umferðarslysi svo framarlega sem hann er um borð í Volvobifreið þegar slys á sér stað.

 Thomas Broberg sérfræðingur hjá  rannsóknastöðinni segir að tekist hafi með nýjustu Volvo gerðunum að minnka hættu á líkamstjóni og dauða um helming miðað við Volvo bíla áttunda áratugarins, sem þó voru taldir öruggustu bílar sem völ var á þá. Hann segir að nú nálgist menn hröðum skrefum núlllausnarmarkmiðið sem er að enginn stórslasist eða farist í Volvo bíl frá og með árinu 2020.

http://www.fib.is/myndir/Volvo_Cars_Crash_Safety_Centre.jpg

Þegar Gústaf Adolf Svíakóngur opnaði stöðina formlega fyrir réttum áratug  var hún sú fullkomnasta sinnar tegundar í heiminum. Ein nýjungin í henni var sú að hafa gegnsæjan glugga í gólfinu til að geta myndað árekstra neðanfrá ásamt því að mynda þá ofan frá og út frá hliðum. Stöðin og búnaður hennar hefur síðan jafnt og þétt verið endurnýjaður og endurbættur og nýjustu græjurnar eru sérstakar háhraðamyndavélar sem geta tekið 200 þúsund myndir á sekúndu, sem hljómar með talsverðum ólíkindum. Allt að 50 myndavélar eru notaðar til að mynda hvern árekstur þannig að hægt er að skoða og greina nánast hvert smáatriði í hverjum árekstri utan bílanna og innan þeirra líka og nýta þá þekkingu sem fæst til að endurbæta bílana.

 Í rannsóknastöðinni er hægt að endurskapa eða sviðsetja nánast allar þær tegundir árekstra sem hugsanlega geta orðið í umferðinni. Tvær árekstursbrautir eru í stöðinni. Önnur er 154 metra löng og þar er hægt að setja upp árekstra á miklum hraða. Hin brautin er 108 metra löng og breytileg á þann hátt að hægt er að láta bíla rekast saman undir mismunandi áfallshornum.

 Þegar nýr bíll er sendur í stöðina til að árekstursprófa hann er í rauninni búið að árekstursprófa hann í þúsundir skipta, ekki þó raunverulega heldur í tölvulíkani. Sjálf árekstursprófin eru því einskonar fullvissu eða staðfestingaraðgerð, en tölvuprófanirnar og raunverulegu árekstursprófin styðja vissulega hvort annað því að oft verða óvænt atvik í raunveulegu prófununum sem tölvulíkaninu kannski yfirsást. Þá er tölvulíkanið að sjálfsögðu leiðrétt.

Í stöðinni eru notaðar tilraunadúkkur. Þær eru af ýmsum stærðum eins og títt er um fólk. Þá er búnaðurinn í dúkkunum mismunandi eftir því hvort hvort þær eru notaðar í t.d. framaná-árekstrum, hliðarárekstrum eða aftanakeyrslum. Hver

árekstursdúkka er mjög flókin að allri gerð og mjög dýr. Verðmæti hverrar dúkku er ca 25 milljónir króna. Eftir hvern árekstur eru dúkkurnar viðgerðar og yfirfarnar mjög nákvæmlega. Sumar þeirra hafa því verið notaðar lengi eða allt að 30 ár og „lent“  í „hundruðum umferðarslysa.“