Árleg CO2 losun á Íslandi

Árlegur CO2 útblástur (reiknað ígildi) á Íslandi er 4.468.000 tonn. Miðað við það hvernig umræðan um þessi mál er á köflum, mætti ætla að fólksbílar landsmanna væru megin uppspretta losunarinnar. Svo er hins vegar alls ekki ef marka má svar umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Andersen alþingismanns. Fólksbílarnir eiga einungis 13 prósent þessa magns (586 þ. t). Landbúnaðurinn á 15 prósenta hlut (678 þ. t). Það er hins vegar iðnaðurinn – fyrst og fremst stóriðjan – sem á stærsta hlutann eða 42 prósent (1.889 þ. t.).

En með þessu er ekki öll sagan sögð: Athygli vekur nefnilega að í svari ráðherra er CO2 losun frá framræstu landi ekki talin með annarri losun af mannavöldum. Þessi losun er engu að síður gríðarlega mikil eða rúmlega tvöfalt meiri en annað samanlagt: Losun frá framræstu mólendi er áætluð vera 9.466 þ. tonn sem gæti þýtt það að til að draga verulega úr heildarlosuninni á Íslandi sé nóg að moka árlega ofan í fáeina kílómetra framræsluskurða og endurheimta með því votlendi.