Askja tekur næstu skref í átt að stafrænum bílakaupum

Bílaumboðið Askja hefur sett nýjan rafrænan sýningarsal í loftið. Sýningarsalurinn er sá fyrsti á Íslandi sem býður upp á valmöguleikann að klára bílakaup á vefnum.

Sýningarsalurinn hefur verið uppfærður til að einfalda samanburð bifreiða og hámarka þægilega notendaupplifun. Áhersla hefur verið lögð á breytta notendahegðun í kjölfar orkuskipta. Val á orkugjafa er eitt af því fyrsta sem fólk hugsar út í við val á bíl og býður sýningarsalurinn upp á gott yfirlit yfir bíla sem til eru á lager og einnig þá sem eru væntanlegir.

Nýr sýningarsalur Öskju býður viðskiptavinum að greiða bíl að fullu á vefnum í gegnum persónulega síðu sem viðkomandi skráir sig inn á með rafrænum skilríkjum. Askja er eina bílaumboðið á Íslandi sem býður upp á þennan valmöguleika.

„Við viljum mæta vaxandi kröfum neytenda um óaðfinnanlega stafræna upplifun. Bílamarkaðurinn er að mörgu leyti nokkrum árum á eftir þegar kemur að stafrænum kaupum og þjónustu vegna eðlis vörunnar og þjónustunnar en við sjáum fram á breytta tíma á komandi árum. Rannsóknir hafa sýnt að vaxandi áhugi og vilji er meðal einstaklinga að klára bílakaup á netinu og þar er auðvitað stafræna kynslóðin í forgrunni þar sem meirihluti einstaklinga 40 ára og yngri myndu vilja klára bílakaup á netinu," segir Sigríður Rakel Ólafsdóttir, markaðsstjóri Öskju.

Myndatexti: Nýr rafrænn sýningarsalur Öskju.