Askja tekur við Honda umboðinu

Bílaumboðið Askja tekur formlega við Honda umboðinu á Íslandi þann 8. nóvember nk. Askja tekur við Honda umboðinu af Bernhard sem er í eigu fjölskyldu stofnandans, Gunnars Bernhards. Fyrir er Askja með umboð fyrir Mercedes-Benz og Kia og nú bætist Honda við sem þriðja vörumerkið hjá fyrirtækinu.

 Honda er sjöundi stærsti bílaframleiðandi heims og framleiðir yfir 5 milljón bíla á ári. Honda hefur markað sér afgerandi stefnu í rafvæðingu og á næstu 36 mánuðum mun Honda kynna sex nýja umhverfisvæna bíla á markað í Evrópu. Þar af verða tveir rafbílar og fjórir Hybrid bílar. Nýr Honda e rafbíll og Honda Jazz í Hybrid útfærslu eru fyrstu bílarnir af þessum sex nýju, umhverfisvænu bílum úr smiðju Honda og koma þeir báðir á næsta ári.

Við hjá Öskju erum full tilhlökkunar á þessum spennandi tímamótum og bjóðum viðskiptavini Honda velkomna til okkar. Honda er sterkt og gott merki sem hefur verið vinsælt og vel sinnt á Íslandi. Sterk sýn Honda á rafbílavæðingu sannfærði okkur um að þetta merki hentaði Öskju vel. Við munum fá fyrstu Honda e rafbílanna á næsta ári og hefst forsala þeirra í janúar nk. Það eru því mjög áhugaverðir tímar framundan og ég er sannfærður um Honda merkið á eftir að styrkja sig enn frekar í sessi hér á landi á komandi misserum,” segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

„Fyrir hönd Bernhard fjölskyldunnar viljum við stjórnendur Bernhard ehf, Geir, Gylfi og Gunnar Gunnarssynir, þakka hinum fjölmörgu tryggu viðskiptavinum Honda hér á Íslandi samfylgdina undanfarin 57 ár og við óskum Öskju, nýjum umboðsaðila Honda á Íslandi velfarnaðar í framtíðinni“, segir Gylfi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bernhard.

Askja er með höfuðstöðvar á Krókhálsi 11 þar sem þjónustan fyrir Honda bíla verður en söludeild Honda verður með aðsetur á Fosshálsi 1. Bílaumboðið Askja var stofnað árið 2005 og þar starfa fyrir 125 starfsmenn og nú bætast 15 starfsmenn frá Bernhard í hópinn.