Atkvæðagreiðsla um Vaðlaheiðargöngin

Í dag kl 15 verður atkvæðagreiðsla á alþingi um heimild til handa fjármálaráðherra til að gangast í ábyrgð, f.h. ríkissjóðs fyrir 8,7 milljarða kr. láni vegna Vaðlaheiðarganga. Framhald annarrrar umræðu fór fram í gær, en lauk nokkuð skyndilega. Í gærkvöldi bárust svo fréttir af því að málið yrði ekki frekar rætt heldur færi beint í atkvæðagreiðslu.

Einhvers konar samkomulag virðist hafa orðið um að hætta frekari umræðu um þetta umdeilda mál og setja það beint í atkvæðagreiðslu. Sú atkvæðagreiðsla snýst í raun um það að gefa fjármálaráðherra heimild til að veita hlutafélaginu Vaðlaheiðargöngum ríkisábyrgð þrátt fyrir að  félagið uppfylli ekki kröfur ríkisábyrgðarlaga um hlutfall eiginfjárstöðu og upphæðar ábyrgðarinnar.

Hvort og hvernig þetta tengist öðrum málum sem enn bíða afgreiðslu á þingi og þinglokum verður ekki reynt að ráða í á þessum vettvangi. Og enda þótt andstaða við málið sé umtalsverð í þingi, óháð flokkslínum, verður þó að teljast líklegt að ríkisábyrgðarheimildin verði samþykkt og að þessi umdeilda ríkisframkvæmd geti þar með hafist.