Atlantsolía lækkar eldsneyti

Atlantsolía fór fyrir verðlækkun á eldsneyti í gær þegar félagið lækkaði verð á bæði bensíni og dísilolíu um 5 krónur á lítra.  Eftir verðbreytinguna algengasta verð á bensínlítra hjá Atlantsolíu 216,90 krónur og 211,90 krónur fyrir dísilolíulítra.  Ódýrast er að versla hjá Atlantsolíu við Kaplakrika og Sprengisand en þar fór bensínlítrinn í 188,80 krónur og dísillítrinn í 188,40 krónur.

Í kjölfar Atlantsolíu lækkaði N1 eldsneytið á sínum stöðvum í morgun en minna. Algengasta bensínverðið hjá N1 er núna 218,90 krónur og dísilverðið er 215,40 krónur. Þegar þetta er ritað um miðjan dag (31. mars) er Orkan búin að lækka og þar eru verðin 0,10 krónum undir Atlantsolíu.  ÓB var einnig að lækka niður í sömu verð og hjá Atlantsolíu.  Sem fyrr er ódýrast hjá Costco en þar kostar bensínið 180,90 krónur og dísilolían 179,90 krónur.

FÍB hefur gagnrýnt olíufélögin undanfarið fyrir að skila ekki lækkun olíu á heimsmarkaði til íslenskra neytenda.  Það sem af er mars hefur Atlantsolía lækkað bensínið mest eða um 18,50 krónur.  Meðalálagning á hvern bensínlítra á íslenskum markaði er yfir 13 krónum hærri í mars samanborið við febrúar. 

Í þessum útreikningum er tekið tillit til gengisþróunar en íslenska krónan hefur verið að veikjast töluvert í mars gagnvart flestum gjaldmiðlum.  Vissulega hefur dregið úr sölu á eldsneyti en það er ekki trúverðugt að skila ekki heimsmarkaðslækkun til neytenda.  Þessi verðstefna skaðar neytendur og atvinnulífið og skapar vantraust hjá almenningi gagnvart fyrirtækjum í olíuviðskiptum.