Audi A1 kominn á markað

Nýja smábílsins frá Audi; Audi A1hefur verið beðið með talsverðri eftirvæntingu frá frumsýningunni sem var á bílasýningunni í Genf. Nú er fjöldaframleiðsla á bílnum hafin í nýuppfærðri verksmiðju Audi í Brussel í Belgíu og fyrsta eintakið rann af færibandinu í gær, þriðjudag. Kaupendamarkhópur bílsins er fyrst og fremst yngra fólk, eða sami hópur og Mini frá BMW höfðar til. Og það fer víst ekki milli mála að bíllinn þykir áhugaverður því að þegar liggja fyrir 50 þúsund staðfestar og innágreiddar pantanir. Audi A12 verður framleiddur í 500 eintökum á dag og unnið verður í verksmiðjunni í Brussel á tveimur vöktum.  Áætlað er að byggja 100 þúsund A1 bíla á ári, fyrst um sinn í það minnsta.

 Þegar fyrsti fjöldaframleiddi A1 bíllinn rann af færibandinu var haldin athöfn og viðstaddir hana voru m.a. forsætisráðherra Belgíu, Rupert Stadler forstjóri Audi og Martin Winterkorn stjórnarformaður Volkswagen. Rupert Stadler sagði að bíllinn væri merkur áfangi í sögu Audi því að hann er fyrsti smábíllinn (B-bíllinn) sem  Audi framleiðir. Hann kvaðst þess fullviss að A1 yrði vinsæll bíll og muni gera sitt til að Audi takist í annað sinn að framleiða milljón bíla á einu ári.

 Samkvæmt áætlunum verða 50 þúsund eintök byggð á fyrsta framleiðsluárinu en á því næsta verður gefið í og framleiddir 80 þúsund bílar og þar eftir 100 þúsund eintök á ári.

 Verksmiðjan í Brussel var fyrst tekin í notkun árið 1949. Undanfarið hefur A3 Sportback verið byggður í henni og þar áður, eða fram til ársins 2009 var eldri gerðin af VW Polo sett saman þarna.

Undanfarna mánuði hefur mikil auglýsingaherferð vegna Audi A1 farið fram á Internetinu. Í herferðinni hefur popparinn Timburláki, eða Justin Timberlake verið í aðalhlutverki við að auglýsa bílinn og höfða til ungs fólks með auraráð.

 A1 er sem fyrr segir  í svonefndum B-flokki sem nefna mætti minni meðalbíla. Hann er 25 sm lengri en Mini, framhjóladrifinn og með nánast sömu lengd milli hjóla og Mini, eða 247 sm. Farangursrými hans er þó mun stærra en í Mini. Það tekur 267 lítra en í Mini tekur það 160 lítra

 Svipað og með Mini verður Audi A1 ekki ódýr bíll. Verð hans byrjar í 15.800 evrum í Þýskalandi, sem að vísu er um 800 evrum lægra en ámóta kraftmikill Mini kostar, en um 1000 evrum hærra en hinn nýi Alfa Romeo Mito kostar.

Leitast hefur verið við að hafa Audi A1 sem allra sparneytnastan og þar með léttastan. Þyngdin er frá 1.045 kg og tvær stærðir bensínvéla verða í boði  í upphafi, báðar með túrbínu. Sú minni er 1,2 l að rúmtaki en sú stærri 1,4 l. Uppgefin eyðsla er frá 3,8 l á hundraðið upp í 5,4 l.  Þá verður einnig í boði 90 ha. dísilvél. Minni bensínvélin og dísilvélin skjóta bílnum í flokk umhverfismildra bíla, þ.e. bíla sem gefa frá sér minna en 130 grömm af CO2 á kílómetrann í akstri. Litla bensínvélin blæs frá sér 119 grömmum á kílómetrann og dísilvélin 99 grömmum. Ýmis eldsneytissparandi búnaður eins og sjálfvirk ádrepun og ræsing er staðalbúnaður.