AUDI AG náði milljón bíla markinu

http://www.fib.is/myndir/AudiA4_2009.jpg
Nýr og breyttur Audi A4 kom á markað á síðasta ári.

AUDI AG náði á síðasta ári í fyrsta sinn því yfirlýsta markmiði að framleiða og selja milljón bíla á ári. Alls seldust 1.003.400 Audi bílar í heiminum árið 2008 og varð um 4,1 prósents aukningu að ræða miðað við árið á undan. Nýju gerðirnar Audi Q5 og A4 frískuðu mjög upp á söluna í desembermánuði sl. Þá seldust 82.800 Audi bílar í heiminum miðað við  70.523 í des. 2007.
 
Í frétt frá Audi AG er haft eftir Rupert Stadler stjórnarformanni Audi að árið í fyrra sé 13. vaxtarárið í röð og styrki þær langtíma fyrirætlanir að gera Audi að eftirsóknarverðasta gæðabílavörumerki (premium brand) heims.

Á síðasta ári kom Audi í Ingolstadt  fram með alls 12 nýjar eða verulega uppfærðar gerðir bíla. Söluhæsta gerðin var Audi A4 fólksbíllinn (stallbakur) en ný gerð hans kom á markað í nóvember 2007, Audi A4 Avant birtist svo í apríl 2008 auk nýrra uppfærslna á A3 og A6. Loks kom á markað algerlega ný gerð; Audi Q5.
 
Audi bílar sóttu sérstaklega í sig veðrið í V. Evrópu og Asíu. 53.900 bílar seldust í V. Evrópu í desembermánuði sl. sem er tæplega 23 prósenta aukning miðað við desember 2007. Alls seldust 667 þúsund bílar í V. Evrópu á síðasta ári sem er 2,5 prósentum meir en árið á undan.

Í Asíu seldust um 14 þúsund Audibílar í desember sem er 15,6 prósentum meir en í des. 2007. Alls seldust 155.100 bílar á öllu árinu, sem einnig er 15,6 prósentum meir en árið á undan.
 
Bandaríkin eru þriðji stærsti útflutningsmarkaður Audi. Þar seldust 87.760 Audi bílar árið 2008. Það er 6,1 prósents samdráttur miðað við árið á undan. Í desember keyptu Bandaríkjamenn 7.712 Audi bíla – 9,3 prósentum færri en í desember 2007.