Audi enn í efsta sæti

http://www.fib.is/myndir/AudiLogo.jpg

Árlega eru gerðar markaðskannanir tengdar bílum og bílaeign í löndunum í kring um okkur. Á Norðurlöndum láta systurfélög FÍB gera slíkar kannanir undir merkjum Auto Index en hið þýska systurfélag okkar; ADAC gerir sína eigin könnun hálfsárslega og nefnist hún Automarkenindex eða AutomarxX. Sú nýjasta hefur nú verið birt og er Audi í efsta sætinu fjórða skiptið í röð. Mercedes Benz er í öðru sæti og Volkswagen í því þriðja. Í neðsta sæti er Chrysler og Chevrolet í því næstneðsta.

Könnunin hjá ADAC fer þannig fram að spurningalisti er sendur út til ákveðins úrtaks félagsmanna með félagsblaðinu, ADAC Motorwelt og byggja niðurstöður rannsóknarinnar á 50 þúsund svörum. Til viðbótar eru síðan tekin viðtöl við nokkur þúsund manns og loks eru vegnar inn í útreikningana niðurstöður úr árlegum bilanatíðnikönnunum ADAC ásamt upplýsingum um mengun bílanna, ársskoðanir og endursöluverð.  Þessi könnun ADAC er sú viðamesta og marktækasta sem völ er á um bíla og bílaeign í Þýskalandi. Alls 33 bílategundir koma við sögu í könnuninni nú.

Meginiðurstöðurnar eru sýndar í grafískri mynd sem sjá má með þessari frétt. Taflan sýnir hvernig hver bíltegund kemur út úr könnuninni í einstökum liðum. Liðirnir eru sex. Þeir eru tegundarímynd (Markenimage), markaðshlutdeild (Marktstärke), ánægja eigenda (Kundenzufriedenheit), vörugæði (Farzeugqualität), tæknileg ímynd (Techniktrends) og loks markaðsímynd (Markentrends). Hver þessara liða hefur 10-25% vægi eins og sjá má á töflunni sjálfri. Í síðasta lóðrétta dálknum er svo heildareinkunn gefin. Því lægri sem einkunninn er, þeim mun betra

Audi er sem fyrr segir sú tegund sem er í efsta sæti en mjög litlu munar milli Audi og Mercedes sem ýmist hefur verið að sækja sig (grænu örvarnar) eða staðið í stað frá síðustu könnun. Audi hefur hins vegar verið að dala (rauðu örvarnar) eða stendur í stað, nema í liðnum vörugæði. Þar hefur Audi bætt sig.

AF öðrum atriðum sem AutomarxX könnunin leiðir í ljós en ekki endilega sjást á töflunni má nefna:

Sterkasta tegundarímyndin: Mercedes Benz. Audi og BMW fylgja þétt á eftir..

Besta endursöluverðið: (miðað við fjögurra ára gamla bíla) Mini, Porsche, Toyota og Land Rover.

Stærsta markaðshlutdeildin í Þýskalandi: Volkswagen. Ford er í greinilegri sókn með fjölbreytt úrval nýrra gerða og hafnar í 6. sæti í þessum lið.

Ánægðustu eigendurnir: Subaru, Porsche og Honda. Sex af níu efstu í þessum lið eru bílar frá Asíu.

Tæknilega fulkomnastir, neyslugrennstir og bila minnst: Audi, Mercedes og BMW.

Minnsti CO2 útblástur m.v. afl: BMW.

Stærsta stökkið upp: Subaru. Var í 23. sæti síðast en nú í 5.
http://www.fib.is/myndir/ADAC_automarxx.jpg