Audi hættir við R8 rafbílana

Í flugskýli á gamla og aflagða Tempelhof flugvellinum í Berlín standa fjórir bílar; tæpur helmingur þeirra Audi R8 e-tron rafbíla sem byggðir hafa verið. Audi R8 e-tron var ofursportbíll, mjög aflmikill og hraðskreiður. Hann var fyrst sýndur á Frankfurt bílasýningunni árið 2009. Þar töluðu forráðamenn Audi hiklaust um að rafbílaöld væri að ganga í garð og að Audi hyggðist verða fremst gæðabílaframleiðenda í framleiðslu þeirra. 

Raunin varð allt önnur. Þróun í framleiðslu rafgeyma varð ekki jafn hröð og menn höfðu vænst og verðið lækkaði ekki að neinu marki. R8 e-tron bílarnir urðu því ekki nema tíu alls en ekki þúsund eins og til stóð að byggja fyrsta framleiðsluárið. Og fjórir þessara tíu bíla standa í gamla flugskýlinu við Tempelhof.

Örlög þessa rafknúna ofursportbíls eru mjög dæmigerð fyrir rafbílaþróunina undanfarin ár. Verðið á rafhlöðunum lækkaði ekki eins og margir höfðu búist við, hleðslutíminn styttist ekki að marki og innviðir eins og hleðslustöðvar fyrir rafbíla létu á sér standa. Rafbíllinn hefur þannig ekki orðið valkostur í stað hefðbundinna bíla og er ekki enn. Eftir að hafa horfst í augu við þennan veruleika ákváðu svo stjórnendur Audi einhverntíman eftir árið 2010 að leggja Audi R8 e-tron á ís og forstjórarnir segja nú óhikað að hreinir rafbílar verði enginn valkostur fyrir almenning fyrr en í fyrsta lagi eftir áratug. Tengiltvinnbílar séu málið þangað til.

R8 e-tron bílarnir fjórir í flugskýlinu standa þarna eins og safngripir við hliðina á Douglas C-54 flugvél; einni þeirra sem fluttu vistir til Berlínarbúa þegar Rússar lokuðu öllum vegum til og frá borginni árið 1948-1949. Hvorki bílarni n é flugvélin eru til sölu.

R8 e-tron voru ýmist með fjórhjóladrifi eða bara með drifi á afturhjólunum. Þeir fjórhjóladrifnu voru með rafmótor við hvert hjól en hinir með tvo fyrir hvort afturhjólið um sig. Hver mótor er 190 hestöfl þannig að með tveimur mótorum er aflið 380 hö. Vinnslan eða togið er gríðarlegt – 820 Newtonmetrar.