Audi í mótorhjólin?

Audi, sem er hluti af VW, leitar nú eftir kaupum á ítalska  mótorhjólaframleiðandanum Ducati. Nokkrir evrópskir fjölmiðlar greina frá þessu og segja að viðræður standi yfir milli aðila. Enginn talsmaður Audi/VW né Ducati hefur viljað staðfesta fregnina. En samkvæmt öruggum heimildum fjölmiðlanna eru viðræðurnar það langt komnar að kaupsamningar verða líklegast undirritaðir um miðjan apríl nk.

Á evrópskum bílamarkaði keppir Audi einkanlega við BMW og verði af þessum kaupum á Ducati, hlýtur samkeppni þeirra enn að harðna við það að Audi sæki inn á mótorhjólamarkaðinn þar sem BMW hefur trausta fótfestu. Þau eru vissulega ekki mörg eftir mótorhjólamerkin í Evrópu og er BMW tvímælalaust þeirra öflugast. Bæði Moto Guzzi og Ducati á Ítalíu hafa átt í talsverðum erfiðleikum undanfarin ár og þurft að hörfa fyrir japönskum hjólum og langt er síðan bresku merkin öll með tölu gáfust upp fyrir japönsku innrásinni. Ducati  á sér langa og glæsta sögu og Ducati mótorhjól hafa verið mjög sigursæl í kappakstri um áratugi. Nútíma Ducati hjól þykja mjög vel hönnuð og falleg að sjá, viðbragðsfljót og hraðskreið og gefa frá sér hljóð sem auðþekkt séu og geðþekk sönnu kunnáttufólki um slík farartæki.

En það er ekki bara mótorhjólanna vegna sem Audi sækist eftir að eignast Ducati heldur líka og ekki síður vegna vélanna í þeim sem vel mætti nota í bíla. Ducati vélarnar eru nefnilega afar léttbyggðar og sterkar, aflmiklar og sparneytnar.

Höfuðstöðvar Audi eru í Ingolstadt og þar hefur í áranna rás byggst upp rannsókna- og þróunarmiðstöð í véltækni. Þar hafa hinar litlu, léttbyggðu aflmiklu og sparneytnu vélar fæðst sem þekktar eru í Audi, Volkswagen, Skoda og Seat bílum. Þar yrðu Ducati mótorhjólavélarnar mikill happafengur að mati margra.

Ducati var stofnað árið 1926 í Bologna á N. Ítalíu. Á sl. 60 árum hafa Ducati mótorhjól 17 sinnum unnið heimsmeistaratitla í flokki ofurhjóla og síðast í fyrra. Meðal frægs fólks sem eiga og nota Ducati mótorhjól eru leikararnir Tom Cruise og Brad Pitt og Ferdinand Piech, stjórnarformaður Volkswagen og afabarn sjálfs Ferdinand Porsche stofnanda Porsche og hönnuðar upphaflegu Volkswagen bjöllunnar.

Ef af þessum kaupum verður, bætist Ducati í hóp annarra vörumerkja innan Volkswagen hópsins. Þau eru Lamborghini, Skoda, Seat, Bentley, Audi og Bugatti, MAN og Scania.